Leiguverð á höfuðborgar­svæðinu hefur hækkað um 30 prósent á síðustu þrem­ur árum sem er langt umfram al­mennar verðlagshækkanir. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um rúm 9% á sama tíma. Lóðaskortur og biðlistar eftir félagslegu húsnæði hjá sveitarfélögunum hafa valdið því að eftirspurnin eftir leiguhúsnæði er langtum meiri en framboðið. Í dag er starfandi verk­efnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála sem mun skila til­ lögum í febrúar. Soffía Eydís Björg­vinsdóttir lögfræðingur er formað­ur stjórnarinnar.

„Mér finnst þetta ekki góð þróun,“ segir Soffía. „Þetta er úr takti við allt annað og endurspeglar kannski best þörfina fyrir leiguhúsnæði. „Það hafa komið fram hugmyndir um að leysa ýmis vandamál en satt best að segja veit ég ekki hvort við náum að leysa bráðavandann með okkar vinnu. Við erum að leggja línuna til framtíðar. Eitt af okkar verkefnum er að koma með tillögur um það hvernig við getum komið á virkum leigu­markaði. Þá erum við ekki bara að tala um félagslega hlutann heldur líka almenna markaðinn,“ segir hún.

Mikil þörf

„Það er geigvænlegt að fylgjast með því hvað þörfin er mikil eftir félags­legu húsnæði,“ segir Soffía. „Það vantar samt ekki bara leiguhúsnæði fyrir tekjulægstu hópana heldur líka hina sem eru með meðaltekjur. Þá á ég til dæmis við fólk sem er að ljúka námi og þá sem eru ekki með það efst á sínum forgangslista að kaupa íbúð. Þetta er breyting frá því sem áður var þegar nánast allir höfðu það markmið að kaupa sér fasteign. Það þarf líka að koma til móts við þetta fólk með einhverjum hætti,“ segir hún.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .