Þorsteinn Pálsson, stjórnarformaður MP banka, er gagnrýninni á þau áform áð hraða innleiðingu á reglum Evrópusambandsins um auknar eiginfjárkröfur á fjármálafyrirtæki. Hann sagði í ræðu sinni á aðalfundi MP banka á föstudag í síðustu viku fyrirsjáanlegt að eiginfjárkröfurnar muni ekki snerta stóru endurreistu bankana heldur aðeins MP banka og sparisjóði.

Morgunblaðið fjallar um ræðu Þorsteins í dag. Í umfjöllun blaðsins er rifjað upp að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi nýverið lagt fram frumvarp á Alþingi til breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt verður 2,5% verndarauki innleiddur í eiginfjárkröfur 1. janúar 2015. Hann leggst ofan á lögbundið 8% lágmarkshlutfall eiginfjár og þá viðbótareiginfjárkröfu sem Fjármálaeftirlitið gerir hverju sinni til fjármálafyrirtækja (SREP).

Þorsteinn sagði í ræðu sinni að þessar kröfur gætu mögulega þýtt aukna bindingu eiginfjár í íslenska fjármálakerfinu upp á ríflega 58 milljarða króna. Ekkert mat hafi farið fram á efnahagslegum afleiðingum þess og taldi hann að áhrifin yrðu hlutfallslega mun meiri fyrir smærri fjármálafyrirtæki en stóru bankana. Í Danmörku hafi stjórnvöld hins vegar þótt ráðlegt að innleiða kröfu um verndarauka í skrefum til 2019. „Vandséð er hvaða rök standa til annars hér á landi,“ sagði hann.