„Ég hef haft þá skoðun að það sé of­ fjárfesting í fjarskiptakerfinu miðað við markaðinn eins og hann er í dag,“ segir Ómar Svavarsson, forstjóri Vodafone. Hann fullyrðir að samkeppnin á fjarskiptamarkaði hér á landi sé gríðarleg. Það sé mjög jákvætt. Samkeppnin hefur hins vegar komið niður á afkomu og skapað hættu á offjárfestingu hjá fjarskiptafyrirtækjum.

„Að mínu mati eru ekki mikil vaxtatækifæri á íslenskum fjarskiptamarkaði nema að menn sameinist, a.m.k. um til­tekna hluti í rekstrinum eða stækki,“ bætir hann við.

Þrátt fyrir markaðsaðstæður segist Ómar þó vera bjartsýnn þeg­ar kemur að fjarskiptaiðnaðinum almennt.

„Þessi iðnaður er að breyt­ast mikið og hratt og er að verða að gagnaflutningsiðnaði,“ bend­ir hann á. „Að því leyti erum við rétt að byrja og það er mikið framundan. Við hófum þá vegferð fyrir nokkrum árum að undirbúa fyr­irtækið undir þessar breytingar á fjarskiptamarkaði – meðal annars með nýrri hugsun í þjónustufram­boði, tilkomu sæstrengs o.fl. – enda sáum við fljótt margföld­un á gagnanotkun.“

Ómar bendir á að gagnapakkarnir sem fyrirtækið bjóði upp á séu mun umfangsmeiri en þeir voru á sínum tíma. Með­alheimilið í dag noti til dæmis svip­ að gagnamagn og meðalfyrirtæki gerði á Íslandi fyrir fimm árum.

„Við erum að undirbúa okkur fyrir gagnaflutningsbyltinguna,“ segir Ómar að lokum. „Þar liggur framtíð markaðarins – og fyrirtækisins,“ segir Ómar Svavarsson.

Ítarlegt viðtal við Ómar má lesa í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .