Framlög til háskóla hér á landi hafa verið skorin niður þrjú ár í röð. Það er þvert á ráðleggingar sérfræðinga frá Finnlandi og Svíþjóð sem reynslu höfðu af djúpum kreppum. Þeir mæltu fremur með því að standa vörð um menntun, sérstaklega á háskólastigi enda sé menntaður mannauður grunnurinn að þeim hagvexti sem nauðsynlegur er til að komast úr kreppu.

Þetta segir í gagnrýni Háskólans í Reykjavík á fjárlagafrumvarpið sem útbýtt var á Alþingi í gær. Þar er m.a. bent á að íslensku háskólarnir hafi ekki mátt við niðurskurði enda hafi þeir verið svo illa fjármagnaðir fyrir hrun að hverjum háskólanema hér fylgdu aðeins um 56% þeirra framlaga sem fylgdu meðalháskólanema á Norðurlöndunum.

„Ísland ver hlutfallslega háu hlutfalli landsframleiðslu til menntunar og stendur þar framarlega meðal OECD landa, en sökum þess hve litlum hluta þess er varið til háskóla er Ísland  vel fyrir neðan meðaltal þegar kemur að háskólamenntun.“

Í yfirlýsingu frá skólanum segir ennfremur:

„Mest hefur verið skorið niður til tæknimenntunar á háskólastigi og er nú ráðgert að skera þar enn frekar niður. Undanfarin ár hefur viðvarandi skortur á tæknimenntuðu fólki á Íslandi staðið í vegi fyrir vexti fyrirtækja í þekkingariðnaði, sem hefur komið niður á verðmætasköpun og hagvexti. Í þessu samhengi má benda á niðurstöðu nýlegrar könnunar sem gerð var meðal 400 fyrirtækja innan Samtaka iðnaðarins. Samkvæmt henni þurfa fyrirtækin um 2000 tækni- og háskólamenntaða starfsmenn á næstu árum til að styðja við vöxt sinn og þróun. Langmest er þörfin fyrir raunvísinda-, tækni- eða verkfræðimenntað fólk.“

Þá er bent á að með ólíkindum sé að horfa til þess að hlutfallslega sé mest skorið niður í framlögum til Háskólans í Reykjavík.

Það sé „enn alvarlegra í ljósi þess að skortur á tæknimenntuðum einstaklingum hefur staðið í vegi fyrir vexti íslenskra fyrirtækja á sviði tækni og hugbúnaðar á Íslandi en Háskólinn í Reykjavík hefur unnið markvisst að því að fjölga einstaklingum með tæknimenntun á háskólastigi.“