*

sunnudagur, 16. maí 2021
Innlent 13. maí 2017 16:16

Segir hegðun Samgöngustofu galna

Framkvæmdastjóri Norðurleiðar SBA segist senda bílstjóra út til að sækja bíla svo þurfi ekki að bíða í mánuð eftir skráningu Samgöngustofu.

Ritstjórn
SBA Norðurleið sendir bílstjóra út með flugi og heim með Norrænu til að fá flýtimeðferð Samkeppnisstofnunar fyrir bíla sem fylgja bílstjórum
Hörður Kristjánsson

Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju og formaður Bílgreinasambandsins segir forskráningar bíla hjá Samgöngustofa ganga ótrúlega. Segir hann að þetta valdi bílaumboðum og öðrum sem flytja inn bíla gríðarlegum töfum að því er Fréttablaðið hefur greint frá.

,,Það hefur valdið því að í sumum tilvikum er forskráning bíla sem jafnan hefur tekið tvo daga að taka allt að fjórum vikum. Þetta er þó misjafnt eftir bíltegundum," segir Jón Trausti. „Svo það sem gerist í ofanálag er að það myndast ákveðinn tappi hjá flutningafyrirtækjum, þau hafa ekki pláss fyrir bílana sem safnast upp út af þessu og þá er verið að stafla bílum upp í gámum. Þetta er mjög vond staða fyrir mjög marga."

Fyrstu bílarnir úr Mykines núna fyrst skráðir

Einungis er um mánuður síðan flutningaskip Smyril Line, Mykines, hóf vikulegar siglingar til Þorlákshafnar, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um nýta margir sér þessa nýju leið til að flytja inn bíla og tæki. Eru fyrstu bílarnir sem komu með skipinu 7. apríl síðastlinn núna fyrst að komast á göturnar að því er Fréttablaðið greinir frá.

Hafa sum fyrirtæki meira að segja brugðið á það ráð að nýta sér þá flýtimeðferð sem Samgöngustofa gefur þeim bílum sem koma með bílstjóra með sér til landsins. Gunnar M. Guðmundsson, framkvæmdastjóri SBA Norðurleiðar á Akureyri segir umstangið allt í kringum það taka um fimm daga með tilheyrandi kostnaði í Fréttablaðinu í dag.

„Ég er með tvo bílstjóra á mínum vegum núna sem fljúga til Óslóar, þaðan koma þeir sér í tengiflug til
Danmerkur og koma heim með Norrænu,“ segir Gunnar. „Það er algjörlega galið að ríkisstofnun skuli geta hagað sér svona í eðlilegu þjóðfélagi."