Í Morgunblaðinu í dag birtist grein eftir Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi dómara við Hæstarétt Íslands.

Í grein sinni gerir hann nýlega frétt um kæru Hreiðars Más Sigurðssonar fyrrverandi forstjóra Kaupþings vegna símhlustunar hjá honum árið 2010 að umtalsefni.

Benedikt Bogason hæstaréttardómari.
Benedikt Bogason hæstaréttardómari.
Héraðsdómarinn sem gaf leyfi fyrir símhlustuninni árið 2010 var Benedikt Bogason. Benedikt var settur hæstaréttardómari árið 2011 en var settur í embættið 1. október 2012.

Í grein sinni spyr Jón Steinar hæstaréttardómarann sex spurninga og segir að heilindi dómarans og virðing fyrir landslögum þurfi að vera hafin yfir allan vafa.

Hér má lesa grein Jóns Steinar í heild sinni.

Svör óskast

Í Fréttablaðinu 16. júní birtist á forsíðu frétt um að fyrrverandi forstjóri Kaupþings hafi kært héraðsdómara og sérstakan saksóknara fyrir refsiverða háttsemi við uppkvaðningu úrskurðar um símahlustun hjá forstjóranum í maí 2010. Dómarinn sem í hlut á hefur nú verið skipaður dómari við Hæstarétt Íslands.

Kæra forstjórans er sögð hafa byggst á því að ekki hafi verið farið að lögum við meðferð málsins, meðal annars hafi ekki legið fyrir skrifleg beiðni frá saksóknaranum við uppkvaðningu úrskurðarins, málið hafi ekki verið tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur við Lækjartorg í Reykjavík, þó að svo sé sagt í úrskurðinum, dómarinn hafi afhent lögreglumanni úrskurðinn á heimili sínu og röksemdir fyrir úrskurðarorðunum hafi verið samdar síðar.

Sérstakur saksóknari hafi að líkindum verið erlendis á þessum tíma og því hafi hann ekki verið viðstaddur við fyrirtöku málsins, þó að svo sé staðhæft í bókunum dómarans. Kemur fram í frétt blaðsins að einn lögreglumanna sem sótt hafi úrskurðinn heim til dómarans hafi staðfest við fréttastofu að atvik þessi hafi verið með þeim hætti sem forstjórinn lýsi.

Þá er skýrt frá því í frétt blaðsins að ríkissaksóknari hafi vísað kæru forstjórans frá, annars vegar vegna þess að ætluð brot dómarans og saksóknarans væru fyrnd auk þess sem þær upplýsingar sem kunni að hafa verið rangar hafi ekki haft þýðingu fyrir niðurstöðuna.

Samkvæmt lögum um meðferð sakamála er það skilyrði fyrir símahlustun í þágu rannsóknar sakamáls að ástæða sé til að ætla að upplýsingar sem skipt geti miklu fyrir rannsókn máls fáist með þeim hætti og að ríkir almanna- eða einkahagsmunir séu í húfi.

Tilskilið er að úrskurð dómara þurfi til að hlusta megi síma. Í þessu felst að dómari þurfi, áður en hann felst á kröfu lögreglu um símahlustun að kanna málsgögn vandlega og leggja mat á hvort efni séu til að beita þeirri skerðingu á friðhelgi einkalífs sem felst í svona hlustun. Sakirnar sem forstjórinn bar á dómarann voru því alvarlegs eðlis, því þær fela í sér að dómarinn hafi beitt valdi sínu til skerðingar á persónufrelsi forstjórans án þess að hafa farið að lögum.

Í frétt blaðsins kemur fram að dómarinn sem í hlut átti hafi ekki viljað tjá sig efnislega um þessar ásakanir. Hann hafi hins vegar vísað þeim alfarið á bug.

Almannahagsmunir


Það er misskilningur ef menn halda að þetta mál snúist aðeins um hugsanlegar refsiverðar sakir og ekki þurfi neitt að sinna því frekar ef þær eru fyrndar.

Almannahagsmunir af því að valdi dómara sé beitt í samræmi við lagaskyldur eru miklu þýðingarmeiri. Dómarinn sem í hlut á hefur nú verið skipaður dómari við æðsta dómstól þjóðarinnar, Hæstarétt Íslands.

Heilindi hans og fylgispekt við landslög þurfa að vera hafin yfir vafa. Vonandi hefur hann ekki gerst sekur um þá misnotkun dómsvalds sem forstjórinn heldur fram. Til þess að róa okkur hin, borgarana sem þurfum að treysta honum í öðrum málum, ætti hann að svara opinberlega eftirgreindum spurningum:

1. Hafði hann fengið skriflega beiðni frá sérstökum saksóknara um símahlustun, áður en hann kvað upp úrskurðinn?
2. Hvaða önnur gögn lágu fyrir honum á því augnabliki?
3. Var málið tekið fyrir á þingstað Héraðsdóms Reykjavíkur við Lækjartorg í Reykjavík?
4. Er það rétt sem segir í frétt blaðsins, að lögreglumenn hafi sótt úrskurðinn á heimili dómarans í Reykjavík og þá hafi engar forsendur fylgt niðurstöðunni?
5. Mætti sérstakur saksóknari á dómþing í málinu?
6. Óskaði hann eftir því við lögreglumennina sem sóttu úrskurðinn til hans að skrifleg beiðni um símahlustunina yrði fengin honum síðar?

Ég leyfi mér að vona að dómarinn sýni með svörum sínum að hann hafi farið í einu og öllu að lögum við meðferð þessa máls og verðskuldi það traust sem hann þarfnast við störf sín sem dómari við Hæstarétt Íslands.

Jón Steinar Gunnlaugsson er fyrrverandi dómari við Hæstarétt