„Heimurinn kallar eftir traustari lánshæfisupplýsingum og áhættumati bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki og ráðstefnan í Prag var afar mikilvægt innlegg í þá viðleitni Creditinfo og annarra sambærilegra fyrirtækja,“ segir Reynir Grétarsson,  forstjóri Creditinfo Group. Creditinfo hélt alþjóðlega ráðstefnu í Tékklandi á dögunum þar sem fram kom að sívaxandi krafa er um allan heim í þá veru að auka vægi og gildi lánshæfismats og áhættuupplýsinga um einstaklinga og lögaðila í viðskiptum.

Fram kemur í tilkynningu frá Creditinfo að ráðstefnuna sátu um 80 sérfræðingar frá 30 löndum. Þar var rætt um helstu atriði sem hafa þarf í huga við stofnun og rekstur lánshæfisfyrirtækja.

Fyrirlestar úr öllum áttum

Fyrirlesarar komu úr ýmsum áttum. Þar á meðal voru þau Sean Albert frá Microbilt í Bandaríkjunum og Clare McCaffrey frá VisualDNA í Bretlandi sem ræddu m.a. um hvernig nýta má óhefðbundnar upplýsingar til þess að bæta áhættumat í lánsviðskiptum með því að skilja og skilgreina neytendur og neytendahegðun enn betur en nú er gert.

Í tilkynningunni er haft eftir Reyni að ljóst sé að ráðstefna sem þessi hafi gríðarlega þýðingu fyrir lánshæfisstarfsemi á heimsvísu.

„Þarna komu saman helstu sérfræðingar á þessu sviði hvaðanæva að úr heiminum og deildu þekkingu sinni á ýmsum hliðum lánshæfismats og tengdum atriðum. Það mun síðan nýtast öllum hlutaðeigandi aðilum við að bæta öryggi í viðskiptum, sem er einmitt kjarninn í starfsemi okkar,“ segir hann.

© Aðsend mynd (AÐSEND)
Gestir á ráðstefnu Creditinfo.