Samanburður á fjórum mismunandi vísitölum frá janúar 2001 til janúar 2009 leiðir í ljós að þróun OMX 15 hlutabréfavísitölunnar hefur leikið lykilhlutverk í þeirri þenslu sem einkenndi íslenskt efnahagslíf frá síðustu aldamótum fram að bankahruninu í haust.

Þetta kemur fram á vef LÍÚ en Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur LÍÚ, hefur borið saman þróun fjögurra mismunandi vísitalna á árunum 2001 – 2009. Hann bar saman þróun neysluverðsvísitölu, íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu og vísitölu aflahlutadeildar í þorski svo og þróun OMX 15 hlutabréfavísitölunnar.

„Þetta er þvert á skoðanir þeirra sem hafa haldið því fram að rót efnahagsvandans megi rekja til frjáls framsals aflaheimilda,“ segir á vef LÍÚ.

Þá kemur fram að Sveinn Hjörtur undrast yfirlýsingar þekktra fræðimanna sem haldið hafa því fram að verðþróun á aflaheimildum sé undirrót þess vanda sem íslenskt samfélag er nú að glíma við.

„Þetta er einfaldlega rangt eins og samanburðurinn sem hér er nefndur sýnir með skýrum hætti,“ segir Sveinn Hjörtur á vef LÍÚ.

„Allir, sem á annað borð vilja sjá það, gera sér grein fyrir því að hækkun hlutabréfa var sem olía á það bál sem kynti undir þenslu í íslensku efnahagslífi þar til það varð sjálft eldinum að bráð.“

Sjá nánar á vef LÍÚ.