Mögulegur brottrekstur Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra hefur vakið upp miklar umræður síðustu daga en brottvikning hans, og eftir atvikum hinna seðlabankastjóranna, kann að baka ríkinu skaðabótaskyldu eins og áður hefur komið fram auk þess sem það vekur upp spurningar um embættismannakerfið um heild.

Heimir Örn Herbertsson, hæstaréttarlögmaður segir í samtali við Viðskiptablaðið að hingað til hafi menn talið mikilvægt að embættismannakerfið ætti að vera hafið yfir pólitísk átök.

„Sú mikla vanstilling sem einkennt hefur umræðuna undanfarið um stöðu Davíðs Oddssonar og það hvernig menn hafa leyft sér að tala um „hreingerningar" í stofnun eins og Seðlabankanum er í raun árás á embættismannakerfið“ segir Heimir Örn.

„Við getum rétt ímyndað okkur hvað hefði gerst ef Sjálfstæðisflokkurinn færi að boða „hreingerningar" í opinberum stofnunum. Ætli margir þeirra sem tala af mestu offorsi gegn persónu Davíðs og hans þætti í atburðarás undanfarinna mánaða hefðu ekki risið upp á afturfæturna með ásökunum um spillingu og valdníðslu?"

Heimir Örn segir að til þess að geta vikið embættismanni úr starfi með löglegum hætti þurfi að sýna fram á að hann hafi brotið af sér í starfi. Sé sú raunin þurfi að koma fram rökstudd og málefnaleg áminning áður en af brottrekstri verður.

„Það hefur enginn sýnt fram á að Davíð [Oddsson] sé í þessu tilfelli brotlegur í starfi. Menn geta deilt um framkomu hans á opinberum vettvangi og svo framvegis auðvitað má ræða og gagnrýna ákvarðanir og árangur Seðlabankans í einstökum málum og velta fyrir sér hæfni einstakra Seðlabankastjóra eins og annarra embættismanna. Ásakanir um brot eða vanrækslu í starfi, á þeim forsendum sem fram hafa komið í umræðu undanfarið, fengju hins vegar að mínu mati aldrei staðist fyrir dómi,“ segir Heimir Örn.