Óskiljanlegt er að tengja þá ákvörðun breskra stjórnvalda að beita hryðjuverkalögum gegn Íslandi í bankahruninu við Kaupþing Singer & Friedlander (KSF), banka Kaupþings í Bretlandi, að mati Ármanns Þorvaldssonar, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings í Bretlandi.

Hann skrifar um KSF í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag í framhaldi af viðtali Egils Helgasonar við Guðrún Johnsen, hagfræðingi og lektor í fjármálum við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Hún var í viðtali Í RÚV vegna bókarinnar Bringing Down the Banking System, sem hún hefur ritað og kom út á dögunum.

Ármann finnur margt að því sem Guðrún sagði í þættinum um aðdragandann að falli Kaupþings, rekstri KSF í Bretlandi og ástæðum þess að stjórnvöld í Bretlandi beittu hryðjuverkalögum gegn Íslandi. Hann segir m.a. rangt að netinnlánin í Kaupthing Edge hafi verið undir íslensku lausafjáreftirliti en að breska fjármálaeftirlitið (FSA) hafi krafist þess að lausafjáreftirlitið væri í þeirra höndum. Hið rétta sé að innlánin voru frá upphafi skuldbindingar KSF. Þá segir hann

Ármann skrifar:

„Eins og margir vita gerði breska fjármálaeftirlitið ítarlega rannsókn á aðdragandanum að falli KSF. Eftirlitið hélt því aldrei fram að starfsmenn KSF hefðu komið óheiðarlega fram og taldi sannarlega ekki að það hefði verið blekkt. Slík niðurstaða hefði verið kærkomin fyrir fyrrverandi forsætis- og fjármálaráðherra Breta í ljósi þeirra hæpnu yfirlýsinga sem þeir höfðu haft í frammi.“

„Í ljósi þess að KSF tilkynnti FSA sérstaklega, daginn sem Glitnir var þjóðnýttur, um áhyggjur sínar af stöðu mála á Íslandi og áhrif hennar á bankann, auk þess að setja lausafjáráhættu sína á „rautt ljós“, er þessi niðurstaða umdeilanleg.Burtséð frá réttmæti þeirrar aðgerðar, sem ég tel að margir séu ósammála Guðrúnu um, þá er óskiljanlegt að tengja KSF við þá ákvörðun. KSF var breskur banki undir eftirliti FSA. Setning hryðjuverkalaganna hafði engin áhrif á bankann eða heimildir Breta til að ráðskast með hann.Það er erfitt að lýsa því fyrir fólki, sem ekki var á staðnum, hversu vandasamt það var að reka banka eftir að lausafjárkreppa skall á í heiminum sumarið 2007. Hlutskipti íslensku bankanna og dótturfélaga þeirra var sérstaklega erfitt vegna þess að íslenski seðlabankinn var alltof lítill (og bankarnir of stórir) til þess að styðja við þá svo einhverju máli skipti. Á meðan flestar bankastofnanir Evrópu og Bandaríkjanna lágu á spenum seðlabanka sinna höfðu íslensku bankarnir ekkert athvarf. Það er auðvelt að gagnrýna eftir á þær aðgerðir sem bankarnir réðust í við þessar aðstæður, en til að það megi draga einhvern lærdóm af slíkri gagnrýni þá verður hún að byggjast á staðreyndum. Sérstaklega þegar verið er að dylgja á ósmekklegan hátt um að fólk hafi verið óheiðarlegt.“