Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, segir rannsókn embættis sérstaks saksóknara og réttarhöld í því síðastliðnar tvær vikur gegn sér ráðgátu. Hann segir vegferð saksóknara arfavitlausa. „Þetta er náttúrulega hundleiðinlegt að eyða tíma sínum í þessa skelfingu,“ segir hann í samtali við Visi.is .

Síðasti dagurinn í aðalmeðferð málsins fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Verjendur sakborninga í málinu munu þá flytja mál sitt og saksóknari flytja andsvar.

Viðhorf Sigurðar til Al Thani-málsins var svipað fyrir ári. Hann sagði í samtali við VB.is þá rannsóknina standa í vegi fyrir því að hann geti starfað á fjármálamarkaði.

Eins og fram kom í gær krefst saksóknari sex ára fangelsisdóms yfir Sigurði og Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings en fjögurra ára fangelsis yfir Magnúsi Guðmundssyni, fyrrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafi Ólafssyni, var einn stærsti hluthafi Kaupþings  áður en bankinn féll. Þeir eru ákærðir fyrir hlutdeild í meintum brotum Hreiðars og Sigurðar í tengslum við sölu á 5% hlut í bankanum til félags í eigu Al Thanis.