Nákvæmlega tvö ár eru frá síðustu skuldabréfaútgáfu Íbúðalánasjóðs. Sjóðurinn gaf síðast út skuldabréf að nafnvirði um 3,3 milljarða króna 16. janúar árið 2012. Í tölum sem Viðskiptablaðið fékk frá sjóðnum sem ná yfir síðustu tíu ár af skuldabréfaútgáfu sjóðsins þá hefur aldrei komið til þess að svo langt hlé hafi verið gert á útgáfu sjóðsins. Lengsta hléið fyrir þennan tíma er frá vorinu 2011 þegar um fjórir mánuðir liðu á milli útgáfna. Síðasta skuldabréfaútgáfa sjóðsins frá janúar 2012 var í svokölluðum HFF44 flokki en það er skuldabréfafjármögnun sem nær til ársins 2044. Síðasta útgáfa í HFF34 flokknum var í október 2011 og síðasta útgáfa í HFF 24 flokknum var í desember 2010 eða fyrir rúmlega þremur árum.

Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann geti ekki tjáð sig um það hvort umrætt útgáfuhlé haldi áfram eða hvort breytinga sé að vænta.

„Hið augljósa er samt til staðar að við erum með laust fé og við sækjum okkur ekki fé á markað að nauðsynjalausu,“ segir Sigurður. Sjóðurinn hefur átt nóg af lausu fé undanfarin misseri sem kemur til af miklum uppgreiðslum viðskiptavina sjóðsins og innspýtingu frá eiganda sjóðsins, ríkissjóði. Samdráttur í útlánum hefur svo gert það að verkum að engin þörf hefur verið á frekari útgáfu skuldabréfa.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .