Aldrei fyrr, í 26 ára sögu fyrirtækisins, hefur breska ferðaskrifstofan Discover the World þurft að senda íslenskum ráðherra bréf til að tilkynna að félagið myndi hætta öllum viðskiptum við íslenskt fyrirtæki.

Þetta kemur fram í bréfi Clive Stacey, framkvæmdastjóra Discover the World, til Katrínar Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra (og ráðherra ferðamála). Discover the World er ein stærsta ferðaskrifstofa Bretlands og selur þúsundir ferða til Íslands á ári hverju.

Stöð 2 greindi frá því í gærkvöldi að ferðaskrifstofan hefði hætt öllum viðskiptum við íslensku ferðaskrifstofuna Iceland Express vegna lélegra viðskiptahátta.

Viðskiptablaðið hefur bréfið nú undir höndum. Stacey segir að almennt sé íslenskur ferðaiðnaður til fyrirmyndar. Hins vegar sé Iceland Express að koma óorði á íslenska ferðaþjónustu.

Stacey segir viðskiptavini Discover the World hafa upplifað mikil óþægindi vegna starfshátta Iceland Express. Helst megi nefna mikla tíðni þeirra fluga sem hætt hafi verið við eða þeim breytt með stuttum fyrirvara auk þess sem mörgum flugleggjum félagsins hafi verið breytt með stuttum fyrirvara með þeim hætti að lent hafi verið annars staðar en á áfangastað til að losa farþega. Þá hafi upplýsingagjöf félagsins verið ábótavant.

Þá segir Stacey að mikill kostnaður hafi lent á Discover the World vegna starfshátta Iceland Express. Þess utan hafi helstu stjórnendur Iceland Express sýnt lítinn samstarfsvilja og neitað að horfast í augu við þau vandamál sem komið hafa upp.

Einnig kemur fram í bréfi hans að ferðaskrifstofan hafi þurft að vísa öllum hópabókunum sínum til Icelandair. Í fréttum Stöðvar 2 í gær sagði Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express, að ferðaskrifstofurnar tvær ættu í deilum vegna vangreidda reikninga Discover the World og skoða þyrfti ásakanir Stacey í því ljósi.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að hinir vangreiddu reikningar hafi komið til eftir að Iceland Express hafi hætt við flug og Discover the World hafi í kjölfarið þurft að senda viðskiptavini sína með Icelandair með tilheyrandi aukakostnaði.

Loks segir Stacey að þrátt fyrir að félagið hafi nú hætt öllum viðskiptum við Iceland Express eigi fjölmargir viðskiptavinir þess enn bókuð flugsæti hjá félaginu. Þá biður hann iðnaðarráðherra að rannsaka starfsemi félagsins þannig að komast megi hjá frekari vandamálum í framtíðinni.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2 frá því í gærkvöldi.