Finnbogi Baldvinsson, forstjóri Icelandic Group [ IG ], sér fram á að jafnvægi náist í rekstri félagsins á þriðja ársfjórðungi 2008 og að félagið verði rekið með hagnaði á árinu 2009, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

„Félagið mun nú einbeita sér að rekstri og tími skuldsettra yfirtaka og kaupa á félögum er liðinn. Eitt megin verkefni Icelandic í dag er að bregðast við breyttu rekstrarumhverfi félagsins sem einkennist af miklum hráefnishækkunum ásamt hækkandi fjármagnskostnaði með lækkun á öðrum rekstrarkostnaði og afurðaverðshækkunum," segir Finnbogi.

Rekstur Icelandic Group hefur gengið brösuglega um nokkurt skeið.  Greiningardeild Glitnis bendir á að fjórði fjórðungur síðasta árs væri einn sá versti í sögu félagsins.

Finnbogi segir að hagræðingarferlið, sem félagið hefur margkynnt að sé í gangi, hafi dregist. Hann segir að upphafleg markmið um endurskipulagningu félagsins voru óraunhæf. „Einföldun á flóknum rekstri félagsins með fækkun verksmiðja og söluskrifstofa er vel á veg komin," segir hann.