Hópur fólks sem staðinn var að stórfelldum og skipulögðum þjófnaði úr Ikea í Garðabænum er í ferðaþjónustu og á nokkra sumarbústaði. „Það kæmi mér verulega á óvart ef þeir eru ekki allir innréttaðir upp í topp með húsgögnum frá okkur,“ segir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri Ikea á Íslandi. Hann segir verslunina hafa skjalfestan þjófnað hópsins nema sjö til átta milljónum króna og útilokar ekki að þjófnaðurinn hafi verið meiri.

IKEA komst með eftirminnilegum hætti í fréttirnar fyrr á þessu ári þegar upp komst um stórfelldan þjófnað hóps fólks, sem misnotaði skilareglur verslunarinnar til að hafa milljónir króna af fyrirtækinu. Fólkið keypti ódýrari vörur, límdi strikamerki af dýrari varningi á kassana og skilaði þeim.

„Við vorum farin að taka eftir því að hluti vantaði á lagerinn sem áttu að vera þar og í raun var engin trúverðug skýring á því nema þjófnaður,“ segir Þórarinn í samtali við Viðskiptablaðið. Hann segist stoltur af rúmum skilareglum fyrirtækisins. En þar sem aðeins ein Ikea-verslun er hér á landi segir hann að sér þætti það skrýtið ef þess væri krafist af viðskiptavinum að þeir framvísi nótu þegar þeir vilja skila vöru sem aðeins getur verið keypt þar.

„Í gegnum tíðina hafa óprúttnir einstaklingar misnotað þessa stefnu okkar. Um tíma gengu inneignarnótur kaupum og sölum á netinu og við brugðumst við með því að binda inneignarnótur við kennitölur,“ segir hann en hópurinn sem staðinn var að stuldi notaði inneignarnóturnar að hluta til að fjármagna eigin lífsstíl.

„Þau stunduðu stóran hluta af sínum matarinnkaupum í matvöruversluninni okkar og það segir sig sjálft að þegar þú getur fengið nær allan mat fyrir heimilið ókeypis þá hefur það mikið að segja fyrir ráðstöfunarfé þitt almennt,“ segir Þórarinn sem er verulega ósáttur við það hvernig lögreglan höndlaði rannsóknina á málinu. Hann segir lögreglu hafa átt að handtaka allan hópinn samtímis og fara í húsleit hjá þeim. Slíkt hefði verið réttlætanlegt. Lögregla tók hins vegar nokkrar vikur í að yfirheyra fólkið eitt í einu og gat það samræmt frásögn sína.

„Það er með ólíkindum að tekist hafi að klúðra máli sem var eins vel stutt gögnum og þetta. Við höfum því höfðað einkamál gegn þeim og munum vonandi ná einhverju til baka,“ segir hann.

Rætt er við Þórarinn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .