Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) og Evrópusambandið (ESB) neyddu íslensk yfirvöld til að tryggja erlendar innistæðu íslensku bankanna í skiptum fyrir 5,1 milljarða Bandaríkjadala lán.

Þetta varð til þess að Íslendingar urðu með skuldugustu þjóðum heims en skuldirnar nema líkast til um 30 þúsund dölum á hvern Íslending.

Þetta skrifar Hannes H. Gissurarson, prófessor við Háskóla Íslands og stjórnarmaður í Seðlabankanum í bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal í dag. Greinina skrifar Hannes undir fyrirsögninni; Vinstrisveifla á Íslandi.

Hannes segir óeirðir síðustu vikna, sem annars þekkist ekki í friðsælu landi, hafi leitt ríkisstjórnina til falls. Þannig hafi Samfylkingin gefist upp á stjórnarsamstarfinu í kjölfar óeirða.

Þá tekur Hannes fram í grein sinni að helsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna verði að undirbúa kosningar í vor.

Segir vinstri flokkana leita pólitískra hefnda

Hann segir þó að eitt fyrsta verkefni nýrrar stjórnar verði að leita pólitískrar hefndar með því að víkja Davíð Oddssyni, núverandi seðlabankastjóra og fyrrverandi forsætisráðherra, úr starfi.

Hannes segir Davíð, einn fárra Íslendinga, hafa varað við hröðum vexti bankanna. Hann hafi talið þá of skuldsetta og óvíst væri hvort Seðlabankinn gæti stutt þá ef illa færi. Þá hafi Davíð einnig lýst yfir áhyggjum sínum í einkasamtölum við Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Þá tekur Hannes fram að Davíð hafi einungis getað varað við stöðunni en lítið aðhafst þar sem Fjármálaeftirlitið hafi verið fært frá Seðlabankanum árið 1998. Þá starfi Fjármálaeftirlitið undir sömu skilmálum og önnur fjármálaeftirlit á EES svæðinu.

Þá heldur Hannes því fram í grein sinni að vinstri flokkarnir á Íslandi nýti sér upplausnina í þjóðfélaginu til að koma stefnumálum sínum í gegn. Hann segir að Geir H. Haarde og Davíð Oddsson kunni að verða fyrstu „pólitísku fórnarlömb“ efnahagskrísunnar en ólíklegt sé að þeir verði þeir síðustu.

Sjá grein Hannesar Hólmsteins í Wall Street Journal.