Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson.
Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson.

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, krefst þess að reglur um upprunamerkingar á öllum landbúnaðarvörum verði þegar í stað teknar upp á Íslandi og ekki verði beðið með málið fram undir lok ársins. Hann vill líka að reglurnar nái til mjólkurvara.

Sindri segir í samtali við Bændablaðið það vera augljósa hagsmuni íslenskra bænda að neytendur geti treyst þeim vörum sem frá bændum koma. Nokkur mál hafi komið upp þar sem neytendur hafi verið blekktir með því að einstaka fyrirtæki hafa blandað erlendu hráefni saman við framleiðslu íslenskra bænda án þess að þess hafi verið getið á vöruumbúðum. „Við slíkt er ekki hægt að una,“ segir hann.

Í viðtali við Sindra á Rás 2 í morgun sagðist hann ennfremur hafa heimildir að þetta eigi líka við um svínasíður, sem m.a. eru notaðar til að framleiða beikon og það sagt íslensk framleiðsla.

Í blaðinu er talið upp að á síðari hluta nýliðins árs hafi komið upp mál þar sem erlent alifuglakjöt var selt undir íslenskum vörumerkjum. Þá var innflutt smjör blandað saman við íslenskar mjólkurvörur. Bændablaðið segist jafnframt hafa upplýsingar um að svipuð vinnubrögð hafi að einhverju leyti verið stunduð við innflutning á kartöflum og ýmsu öðru grænmeti, sem og á svínakjöti og fleiri matvörum.