Í nýlegu viðtali við CNBC, sagði Kim Fournais, forstjóri Saxo Bank, stýrivaxtastefnu alþjóðlegra seðlabanka og magnbundnar íhlutanir vera Ponzi-kerfi. Með stýrivaxtalækkunum og peningaprentun hafa seðlabankar reynt að örva hagvöxt, en aðgerðirnar hafa að hans mati valdið meira tjóni en ábata.

Fournais segir þetta eiga við alls staðar í Evrópu og Bandaríkjunum. Seðlabanki Danmerkur hefur til að mynda lækkað hagvaxtarhorfurnar í þrjú skipti í röð og spáir því að hagvöxtur ársins muni einungis nema 0,9%, þrátt fyrir umtalsverðar aðgerðir.

Seðlabankastjórar víðs vegar um heiminn hafa gælt við neikvæða stýrivexti til þess að örva markaði enn meira. Um þessar mundir óttast aðilar á markaði þó að seðlabanki Bandaríkjanna hækki vexti.

Neikvæðir stýrivextir heilla Fournais þó afar lítið, enda refsir slík stefna fólki sem kýs að spara fremur en að eyða. Fournais segir pólitíkusa leyfa seðlabönkum að dæla út peningum, þar sem þeir eru vanhæfir til þess að sjá hvað þurfi að gera.

Í viðtalinu sagði hann helstu ríki heimsins vera of upptekin af velferð og jöfnuði, sem kæfir vilja fólks og hvata þeirra til samvinnu. Flókin regluverk, skrifræði og háir skattar þurfa að hverfa, ef blóðið á ekki að storkna í æðum hagkerfisins.