Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, var ræðumaður á þremur Viðskiptaþingum Viðskiptaráðs en missti aðeins úr þinginu í fyrra. Þetta fullyrðir Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi ráðherra. Hann undrast þá söguskýringu sem hann segir hafa farið á flot, að Jóhanna hafi aldrei mætt á Viðskiptaþing.

Steingrímur segir í aðsendri grein á VB.is þar sem hann fer yfir málið í dag að aðstandendur Viðskiptaþings hafi kosið að gera fjarveru Jóhönnu í fyrra að sérstöku umtalsefni í stað þess að taka forföll hennar gild eða leyta eftir staðgengli.

„Ég sótti þingið það ár eins og oftast þegar ég hef við komið. Ég spurði forráðamenn Viðskiptaráðs af hverju þeir hefðu þá ekki leitað til mín sem staðgengils eða vara forsætisráðherra, í stað þess að blása fjarveruna út? Þeim sem eitthvað höfðu fylgst með mátti þá vera orðið sæmilega ljóst að ég gegndi jafnan störfum forsætisráðherra í fjarveru eða forföllum Jóhönnu og eins og um var samið milli stjórnarflokkanna. Fátt varð um svör,“ skrifar Steingrímur.