Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, skýtur föstum skotum að borgarstjórnarmeirihlutanum í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag, en hann gerir 685 milljón króna kaup borgarinnar á BSÍ-húsinu og SÍFskemmunni við Keilugranda að umfjöllunarefni sínu. Ljóst sé að verið sé að greiða hátt verð fyrir lélegar eignir. Þá muni mikill kostnaður, sennilega hundruð milljóna króna, bætast við ofangreinda upphæð vegna niðurrifs SÍFskemmunnar og væntanlegra endurbóta á BSÍ. Muni sá kostnaður allur lenda á borginni.

„Vanhugsuð kaup borgarinnar á umræddum húsum eru skýrt dæmi um léleg vinnubrögð meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins í skipulagsmálum og kæruleysislega meðferð almannafjár. Borgin kaupir BSÍ með því markmiði að þar verði miðstöð almenningssamgangna í borginni án þess að sýnt sé fram á það að húsið sé ákjósanlegur staður fyrir slíka miðstöð til framtíðar. Reykjavíkurborg á báðar umræddar lóðir en húsin eru í eigu sama aðila. Tókst honum að stilla lóðareigandanum, borginni, upp við vegg í málinu og tengja saman kaup á þessum tveimur ólíku eignum með óeðlilegum hætti. Mikið vantar því á að umrædd kaup hafi verið skýrð til hlítar,“ segir í grein Kjartans.