Bæjarráð Kópavogs hefur samþykkt að ganga til samninga við RFC ehf., rekstrarfélag Reebok Fitness, um rekstur líkamsræktarstöðva við sundlaugar bæjarins næstu fimm árim. Ákvörðunin er tekin í kjölfar útboðs, sem er það fjórða sinnar tegundar á síðustu árum. Þrjú fyrri útboð hafa endað með deilum milli Kópavogsbæjar og þátttakenda.

Viðskiptablaðið greindi frá því á dögunum að bæði World Class og Gym heilsa hygðust höfða mál gegn Kópavogi vegna ágreinings um luktir tveggja fyrri útboða. Theodóra S. Þorsteinsdóttir, formaður bæjarráðs í Kópavogi, segir að engin mistök hafi verið gerð í málinu af hálfu bæjarins.

Þurftu að fara eftir eigin reglum

„Á þessu kjörtímabili hafa farið fram tvö útboð. Tilboðin sem við fengum hafa ekki verið gild. Menn hafa ekki uppfyllt þau skilyrði sem við höfum sett í útboðslýsingu,“ segir Theodóra. „Við gátum ekki gert annað en fara eftir eigin reglum og útboðslýsingu.“

Spurð hvort málið sé í heild sinni óheppilegt segir Theodóra: „Mér finnst þetta ekki vera óheppilegt af hálfu Kópavogsbæjar. Við stöndum okkur bara algjörlega þannig að við setjum reglur og förum eftir þeim sjálf. Mér finnst óheppilegt að allir þeir sem hafa verið að bjóða í undanfarin ár hafi ekki uppfyllt tiltölulega eiinföld útboðsskilyrði.“

Mikil gagnrýni vegna gamalla tækja

Síðast þegar var útlit fyrir að Gym heilsa myndi víkja úr sundlaugum Kópavogs vakti það nokkuð neikvæð viðbrögð frá bæjarbúum, en það var þegar World Class vann útboð árið 2014. Í kjölfar þess útboðs var ákveðið að ganga ekki til samninga við World Class á þeim forsendum að tilboð félagsins uppfyllti ekki kröfur útboðsgagna.

Spurð hvort hún reikni með neikvæðum viðbrögðum frá bæjarbúum í þetta skiptið segist Theodóra ekki reikna með því. „Við erum að fá nýjan aðila inn sem kemur með ný tæki. Þau uppfylla líka þau lýðheilsumarkmið okkar að vera með ódýr kort og sambærilegan rekstur. Ég á ekki von á því að það breytist mikið fyrir Kópavogsbúa,“ segir hún.

Hún býst við því að fólk verði ánægt með að fá ný tæki. „Við höfum heyrt mikla gagnrýni frá þeim sem hafa verið að stunda þessa stöð, að þeir hafa ekki verið sáttir með að það hafa verið gömul tæki. Okkur finnst glatað að fara í nýtt útboð og gera þetta ekki að skilyrði.“