Fyrstu skref nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks felast í því að veikja erfiða stöðu ríkissjóðs með því að draga tekjur ríkisins saman, að sögn Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG. Í ræðu sinni við setningu sumarþings á Alþingi í dag gerði hún kosningaloforð stjórnarflokkanna að umtalsefni. Sökum slæmrar stöðu þjóðarbúsins hafi hvorugur fyrri stjórnarflokka boðað útbólgin kosningaloforð.

„Ef hæstvirtur núverandi forsætisráðherra hefði lagt við hlustir, þá hefði hann lagt fram hófstilltari loforð,“ sagði Katrín og rifjaði upp að formenn stjórnarflokkanna hafi báðir sagt stöðu hagkerfisins verri en af var látið í tíð fyrri ríkisstjórnar. Þetta gagnrýndi Katrín og benti á, að ekki hafi verið bent á neitt sem hönd á festi. Hún ýjaði reyndar að því, að með gagnrýni á stöðu þjóðarbúsins sem nýir flokkar fá í heimamund séu flokksformennirnir hugsanlega að kaupa sér frið þar sem kosningaloforð ríkisstjórnarinnar verða dýrir víxlar fyrir ríkissjóð, að hennar sögn.