Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir ekki tímabært að taka saman heildarkostnað Kaupþingsmála frá hruni og ekki verði ráðist í það fyrr en síðar. Þetta kemur fram í svari hans til vefsins Spyr.is .

Vefurinn sendi fyrirspurn til Ólafs þar sem spurt var hvort Kaupþingsmálið væri dýrasta málið sem tekið hefði verið til meðferðar hjá embættinu. Ólafur svarar:

„Því er til að svara við spurningunni að rannsókn á málum tengdum Kaupþingi skiptast niður í allnokkrar aðskyldar rannsóknir eftir þeim kærum sem embættinu hefur borist. Sundurliðaður kostnaður við meðferð einstakra mála hefur hinsvegar ekki verið tekinn saman en þó ber þess að geta að starfsmenn embættisins skrá að jafnaði unnar vinnustundir við hvert og eitt mál.

Staðan nú er að nokkur málanna eru til meðferðar hjá dómstólum en önnur eru enn til rannsóknar og því spurning hvort það væri tímabært að ráðast í þá vinnu að taka saman kostnað fyrr en þeim er lokið.“