Eyvindur Jóhannesson, fyrrverandi eigandi fyrirtækisins VInnulyftur, krefur endurskoðunarskrifstofuna KPMG um samtals 300 milljónir króna vegna aðildar fyrirtækisins að sölu á fyrirtækinu árið 2007. Fréttablaðið fjallar um málið í dag og segir um það að Eyvindur saki KPMG um óheilindi og fyrir að hafa snuðað sig um féð þegar skrifstofan hafði milligöngu um kaup annarra á fyrirtækinu. Tekist verður á um málið í Hæstarétti í næsta mánuði.

Eins og Fréttablaðið lýsir málinu höfðu fulltrúar KPMG samband við Eyvind og sögðust þeir vera með áhugasama kaupendur að fyrirtækinu. Kaupandinn reyndist fyrirtækið FS21 ehf., skúffufyrirtæki stofnað af og í eigu KPMG. Síðar hafi komið í ljós að á meðal þeirra einstaklinga sem áttu eftir að eignast FS21 var einn af lykilstjórnendum Vinnulyfta.

Eyvindur telur samkvæmt blaðinu að KPMG hafi haft hlutverk löggilts fasteigna- og fyrirtækjasala í viðskiptunum og hafi því borið að gæta hagsmuna hans til jafns á við kaupanda. Þessu hafi KPMG-menn mótmælt á þeim forsendum að þeir hafi eingöngu unnið fyrir kaupandann.