Slit á þrotabúum á ekki að taka endalausan tíma. Náist ekki samningar við kröfuhafa gömlu bankanna um lækkun krafna þeirra á Kaupþing, Glitni og Landsbankann þá má ekki útiloka að gripið verði í taumana og slitabúin sett í þrot, að sögn Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Hann segir drög að nauðasamningum slitastjórna föllnu bankanna sem lagðar hafi verið fram ekki nógu ítarlegar og gætu samningar haft neikvæð áhrif á fjármálalegan stöðugleika.

Reuters-fréttastofan fjallar um málið og nauðasamninga slitastjórna gömlu bankanna. Þar er tekið fram að verði gömlu bankarnir settir í þrot þá muni það leiða til brunaútsölu á eignum þeirra og beri þeir þá mun minna úr býtum en kröfur þeirra hljóða upp á. Heildarkröfur á bankana hljóða upp á 7.530 milljarða króna, að sögn Reuters.

Reuters tekur fram að Bjarni hafi ekki vilja staðfesta hvað kröfuhafarnir gætu þurft að afskrifa háar kröfur komi til þess.

Reuters bendir á að slitastjórnir Kaupþings og Glitnis hafi sent Seðlabankanum drög að nauðasamningum síðla árs 2012 en ekki fengið græna ljósið á þá.