Gengi krónunnar ætti ekki að lækka frekar og útilokað er að taka upp fastgengisstefnu. Þetta kemur fram í viðtali við Ingimund Friðriksson sem birtist á vefsíðu breska blaðsins í The Guardian í gær. Fram kemur í viðtalinu að helsta áhyggjuefni stefnusmiða íslenska seðlabankans sé spennan á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og sér Ingimundur engin teikn á lofti um að hún fari minnkandi.

Fram kemur í umfjöllun blaðsins að ummæli Ingimundar bergmáli ummæli Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, en hann lét þau orð falla að veiking gengis krónunnar endurspeglaði ekki það jafnvægi sem ætti að ríkja á gjaldeyrismarkaði. Haft er eftir Ingimundi að ómögulegt sé að spá um hreyfingar á gjaldeyrismarkaði til skemmri tíma og að hann væri ekki að gera það með því að benda á að í sögulegu samhengi væri gengi krónunnar lágt og að ætla mætti að það myndi styrkjast á endanum. Í viðtalinu segir Ingimundur þó að Seðlabankinn hafi ekki skilgreint hvað jafnvægisstig gengisvísitölunnar ætti að vera.

Í greininni er fjallað um hina mikla veikingu krónunnar og hún rakin til minnkandi áhættusækni fjárfesta vegna lánsfjárkreppunnar sem nú ríkir auk almennra efasemda um stöðuna í íslenska hagkerfinu. Sem kunnugt er hefur verið brugðist við þessari atburðarrás meðal annars með gjaldeyrisskiptasamningum við norræna seðlabanka og útgáfu sérstakra skuldabréfa. Aðspurður að því hvort að hann sé ánægður með viðbrögð markaðarins við þessu segist Ingimundur svo vera og að traustið fari vaxandi.

Ingimundur viðurkenni að ástandið á alþjóðlegum fjármálamörkuðum sé erfitt fyrir íslenska hagkerfið og fátt bendi til þess að aðstæður fari batnaði. En hann útilokar að breytt verði um peningamálastefnu og flotgenginu kastað fyrir róða. Hann bendir á að útilokað sé að taka upp fastgengisstefnu miðað við núverandi aðstæður: Markmiðið sé að minnka ójafnvægið í hagkerfinu og það ferli sé hafið. Enn fremur segir Ingimundur að söguleg reynsla Íslendinga og annarra þjóða sýni að flotgengi sé heppileg peningamálastefna.