*

miðvikudagur, 23. september 2020
Innlent 17. janúar 2020 13:21

Segir Kryddlegin hjörtu skulda sér

Lögheimili forsvarsmanns rekstrarfélags veitingastaðarins sagt hafa verið rifið. Vill 744 þúsund auk dráttarvaxta.

Ritstjórn
Veitingahúsið Kryddlegin hjörtu var lengi til húsa í Hverfisgötu 33, í sama húsi og Framsóknarflokkurinn, en á facebook síðu staðarins sem enn er virk er sýnt frá því þegar staðurinn varð fyrir eggja og skyrkasti vegna mótmæla gegn flokknum.
Aðsend mynd

Verktakafélagið RJD hefur stefnt félaginu Brennheitt ehf., sem rak veitingastaðinn Kryddlegin hjörtu, til greiðslu 744 þúsund króna auk dráttarvaxta vegna vinnu við flísalagnir, sparlsvinnu og almenna smíðavinnu.

Segir félagið, sem Rimas Deltuvas er skráður stjórnarmaður fyrir, að ekki hafi tekist að birta veitingastaðnum eða forsjármanni þess, Írisi Heru Norðfjörð Jónsdóttur, stefnuna þar sem bæði veitingastaðurinn sé hættur störfum og skráð lögheimili eigandans hafi verið rifið.

Samkvæmt þjóðskrá er hún skráð til heimilis að Vitastíg 3, sem er efri hluti hússins sem nú stefnir í að byggt verði Radisson Red hótel eins og Viðskiptablaðið greindi frá á dögunum.

Þar sem ekki hafi tekist að hafa upp á núverandi dvalarstað eiganda veitingastaðarins er áskorun um greiðslu skuldarinnar því birt í Lögbirtingarblaðinu. Segir stefnandinn að um sé að ræða vinnu sem stóð yfir í september árið 2018 við veitingastað félagsins að Austurströnd 10 á Seltjarnarnesi.

Kryddlegin hjörtu var um tíma rekið á neðri hæð Hverfisgötu 33, þar sem Framsóknarflokkurinn er með skrifstofur sínar á efri hæð, en á facebook síðu staðarins sem enn er virk eru sýndar myndir frá því þegar staðurinn varð fyrir eggjakasti vegna mótmæla gegn flokknum.

Í frétt mbl.is frá 2016 er rætt við Dagbjörtu Norðfjörð eiganda veitingahússins vegna vandkvæða við reksturinn sem sköpuðust vegna framkvæmda sem þá stóðu yfir við Hverfisgötu. Eins og Viðskiptablaðið hefur rætt um lokuðu einnig fjölmargir staðir við götuna þegar framkvæmdir stóðu yfir neðri hluta hennar síðustu misserin.