Alþingi á helst ekki að fjalla um neitt annað en það hvernig koma megi í veg fyrir að erlendir eigendendur krónueigna setji efnahagslífið á hliðina þegar þeir fara með eignir sínar úr landi, að mati Péturs Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Hann benti á það í óundirbúnum fyrirspurnartíma í dag, að um erlendar krónueignir nemi um þúsund milljörðum króna. Þar af eru 400 milljarðar í aflandskrónum, 400 milljarðar eru í eigu slitastjórnar og til viðbótar því er um 300 milljarða skuldabréf Landsbankans.

„Mér finnst þetta varða allt að því þjóðaröryggi,“ sagði Pétur og lagði áherslu á að koma verði í veg fyrir útflæði krónueigna með tilheyrandi áhrifum á efnahagslífið þegar föllnu fjármálafyrirtækin fara í nauðasamninga.

Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra tók undir áhyggjur Péturs en benti á að um nauðasamningarnir geti haft þónokkur áhrif á íslenskt efnahagslíf. Hún benti hins vegar á að helmingurinn af eignum slitastjórna sé bundinn í eignahlutum þeirra í bönkunum.

Hún gagnrýndi hins vegar Sjálfstæðisflokkinn á móti, sem hafi ekki stutt breytingar í mars og fjölluðu um útgöngu kvikra krónueigenda. Hún benti hins vegar á, að þegar rætt væri um krónueignir væri um ólíka hluti að ræða. T.d. hafi rúmir 300 milljarðar sem fóru af gjaldeyrisreikningi Seðlabankans og mikið var fjallað um ekki haft áhrif á gjaldeyrisforðann þar sem um millifærslu til erlends aðila hafi verið að ræða sem var í vörslu Seðlabankans.