Aðgerðirnar sem ætlað er að forða Kýpur frá þjóðargjaldþroti eru út úr korti. Þær munu valda því að Kýpur lendir í djúpri kreppu og atvinnuleysi verða mikið, að mati Nicholas Papadopolous, formanns fjárlaganefndar kýpverska þingsins.

Formaðurinn segir í viðtali við breska ríkisútvarpið, BBC , að Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi sent út þau skilaboð í björgunaraðgerðunum að leggja ætti efnahagslífið á Kýpur í rúst. Það hafi nánast tekist.

„Þeir hafa eyðilagt bankakerfið,“ segir hann.

Kýpverjar fá ekkert að segja um örlög sín

Samkvæmt samkomulaginu sem náðist í nótt fá stjórnvöld á Kýpur 10 milljarða evra neyðarlán til að koma í veg fyrir hrun fjármálakerifisins og halda landinu inni í evrusamstarfinu. Samkomulagið felur m.a. í sér að næst stærsti banki landsins, Laiki Bank, verður leystur upp, innstæður undir 100.000 evrum fluttar í Kýpurbanka, stærsta banka landsins, en innstæður yfir 100.000 evrum í Laiki Bank og Kýpurbanka þjónýttar að verulegu leyti.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti það sem skilyrði að kýpverska þingið fái ekki að kjósa um það hvernig farið verður með stærri innstæðurnar.