Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs, segir að launakjör forstjóra í Kauphöllinni úr takti við það sem eðlilegt geti talist í íslensku samfélagi. Í aðsendri grein á Innherja segir hann reynsluna sýna sífellt sé bætt við kaupaukum í ýmsu formi til stjórnenda án þess að það komi niður á háum föstum launum.

Árni minnist á umfjöllun um launakjör Ásgeirs Helga Reykfjörð Gylfasonar, sem tók við sem forstjóri Skeljar síðasta sumar, og Orra Haukssonar, forstjóra Símans. Árni virðist vísa þar í fyrirsagnir hjá Heimildinni.

Hann tekur þó fram að forstjórar fyrirtækja sinni flóknum og krefjandi verkefnum. Því sé eðlilegt er að launakjör þeirra taki mið af því.

„En umræddar upphæðir eru hins vegar úr takti við það sem eðlilegt getur talist í íslensku samfélagi. Enda hefur Gildi síðustu ár beitt sér gegn þeirri þróun í launakjörum sem við sjáum nú raungerast.“

Hann bendir á að í hluthafastefnu Gildis sé tekin einörð afstaða til launakjara forstjóra. Í henni segir að ef félög ákveði að notast við árangurstengd launakerfi sé rétt að föst laun séu að sama skapi lægri, samanborið við félög þar sem slík árangurstengd kerfi eru ekki til staðar.

„Gildi hefur oftast einn fjárfesta á markaði staðið á móti straumnum hvað þessar starfskjarastefnur varðar. Mikil vinna hefur verið lögð í greinargerðir og rökstuðning fyrir afstöðu sjóðsins en því miður hefur niðurstaðan oftast verið sú að starfskjarastefnurnar eru samþykktar, sem að lokum leiðir til launa- og bónusgreiðslna eins og rakið hefur verið hér að framan,“ segir Árni.

Hann bendir á að Gildi hafi ítrekað beitt sér í samræmi við þessa stefnu undanfarin ár. Þannig hafi fulltrúar sjóðsins greitt atkvæði gegn starfskjarastefnu Arion, tillögum um breytingu á starfskjarastefnu og kaupréttaráætlun Skeljungs (sem heitir nú Skel), starfskjarastefnu Marels og nýju kaupaukakerfi Icelandair. Auk þess hafi sjóðurinn setið hjá þegar tillaga um starfskjarastefnu Kviku var samþykkt í fyrra.