*

miðvikudagur, 24. júlí 2019
Innlent 29. ágúst 2017 16:33

Segir launafólk alið á uppgjöf

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir ASÍ hafa uppi blekkingarleik um kaupmátt í reiðilestri á facebook í stöðufærslu um frétt RÚV af skýrslu sambandsins um skattbyrði.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Forystu Alþýðusambands Íslands verður aldrei fyrirgefið aðgerðarleysi sitt við hagsmunagæslu almennings fullyrðir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR í stöðuuppfærslum og umræðum á facebook um nýbirta skýrslu ASÍ sem Viðskiptablaðið hefur greint frá.

Segir hann að „þeir" sem eigi með réttu að halda uppi vörnum fyrir vinnandi fólk hafi ekki unnið vinnuna sína árum eða áratugum saman að því er Kjarninn fjallar um.

Launafólk alið á aumingjaskap forystunnar

„Kerfið og staðan sem við erum með í dag er afsprengi þess að launafólk er alið á uppgjöf og aumingjaskap forystunnar og verður henni minnst fyrir það af komandi kynslóðum þegar fram líða stundir.“

Ragnar Þór stýrir stærsta stéttarfélagi landsins en hann deildi frétt RÚV um skýrsluna sem sagði að mánaðarlegar ráðstöfunartekjur tekjulægstu hópanna gætu verið 100 þúsund krónum hærri ef „skattbyrðin" eins og hún er skilgreind hefði verið sú sama og árið 1998.

Er þá átt við ef viðkomandi hefðu haldið áfram að fá jafnhátt hlutfall og var þá í persónuafslátt og tilfærslur í kerfinu, enda er í skýrslunni skattbyrðin skilgreind út frá því. Þetta sé þrátt fyrir að laun hafi aukist mikið á þessu tímabili sem Ragnar Þór minnist ekki á í stöðuuppfærslunni en hann fullyrðir að kaupmátturinn hafi ekki gert það heldur.

Segir kaupmáttaraukningu blekkingarleik

Þar spyr hann hvort ASÍ sé loks að hætta „blekkingaleiknum um kaupmátt og viðurkenna það sem almenningur hefur haldið fram um árabil? Hverjir bera ábyrgð á þessari stöðu og áratuga, algjöru, sinnuleysi gagnvart stjórnvöldum sem hafa kerfisbundið étið upp kaupmátt þeirra sem lægstar hafa tekjurnar? Forystu ASÍ verður aldrei fyrirgefið aðgerðarleysið við hagsmunagæslu almennings!“

Ragnar bætir síðan við að ástæður þess að „fjármálakerfið fékk að valta yfir saklausa borgara á skítugum skónum og hirða sem mest það mátti og stjórnvöld að skattleggja þá efnaminni og millitekjuhópa þannig að kaupmáttur er vart mælanlegur eða í mínus er vegna þess að mótstaðan er engin,“ segir Ragnar Þór í líflegum umræðuþræði um málið á facebook vegg sínum.

Segir áform um einkarekið heilbrigðiskerfi á lokametrunum

„Af hverju erum við á lokametrunum með að koma upp einkareknu heilbrigðiskerfi á Íslandi þegar um 90% þjóðarinnar er þvi mótfallin? Vegna þess að þeir sem eiga með réttu að halda uppi vörnum fyrir vinnandi fólk eru ekki að vinna vinnuna sína og hafa ekki gert árum eða áratugum saman.

Kerfið og staðan sem við erum með í dag er afsprengi þess að launafólk er alið á uppgjöf og aumingjaskap forystunar og verður henni minnst fyrir það af komandi kynslóðum þegar fram líða stundir.“