LeBron James, stærsta stjarna NBA-deildarinnar, mun greina í nótt hvar hann hyggst leika á næstu leiktíð. Ef eitthvað í heimi íþróttanna hefur skyggt á HM í Suður-Afríku er það biðin eftir ákvörðun James. Samkvæmt heimildum ESPN er talið sennilegt að kappinn gangi til liðs við Miami Heat sem hefur styrkst gríðarlega á síðustu dögum eftir að skotbakvörðurinn Dwayne Wade ákvað að endursemja við liðið og framherjinn Chris Bosh gekk í raðir liðsins frá Toronto Raptors. Miami Heat, sem varð meistari árið 2006, yrði því líklegt meistaralið ef stjörnurnar þrjár spila saman.

Margir telja að Dwayne Wade leiki stórt hlutverk í þeirri fléttu að koma stjörnunum þremur saman.

Ef James yfirgefur herbúðir Cleveland Cavs verður það ekki vegna betri launa. Cavs getur boðið honum 128 milljónir Bandaríkjadala til sex ára en Heat "aðeins" 99 milljónir USD fyrir fimm ára samning.