Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík, segir að Seðlabanki Íslands eigi að halda áfram að beina spjótum sínum að styrkingu krónunnar og telur að kaup á ríkisskuldabréfum væru óskynsamleg.

Í pistli sínum, sem birtist á vef Morgunblaðsins , segir hann að skiljanlegt sé að Seðlabankinn takmarki fjárfestingar sínar í ríkisskuldabréfum. Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisbréfa sé neikvæð og að „með slíkum kaupum er hann [Seðlabankinn] í raun að kaupa skuldabréf á of háu gengi á kostnað skattborgara“.

Már segir skiljanlegra að keypt séu skuldabréf með stuttan líftíma „til að halda skammtímavöxtun í samræmi við stýrivexti og auk þess er verðteygni slíkra bréfa lítil.“ Hann segir að Seðlabankinn sé að fylgja réttri stefnu í stýringu peningamála með að halda stýrivöxtum lágum, beina spjótum sínum að styrkingu krónunnar en láta minna til sín taka á skuldabréfamarkaði. Að hans sögn á að leyfa markaðnum að mynda ávöxtunarkúrfuna á lengri endanum.

Gengishagnaður og minni sveiflur

Már telur að ef eitthvað er mætti Seðlabankinn selja meiri gjaldeyri en hann hefur hingað til gert. Vitnar hann í kaup Seðlabankans á erlendum gjaldeyri á síðustu árum þegar að ferðaþjónustan var í hámarki. Þá hafi bankinn unnið gegn því að krónan styrktist meira en ella. Með því að selja gjaldeyri um þessar mundir myndist bæði gengishagnaður sem og Seðlabankinn geti spornað gegn of miklum sveiflum á gengi krónunnar.

Enn fremur segir Már að gengi íslensku krónunnar sé „augljóslega“ aðalástæða núverandi og væntanlegrar verðbólgu. Með því að kaupa gjaldeyri segir Már að Seðlabankinn stuðli að minni verðbólgu. Slíkt geri ríkisbréf óbeint að áhugaverðari fjárfestingakosti sem muni um leið lækka ávöxtunarkröfu téðra bréfa, bæði á styttri sem og lengri endanum.

Ekki allir á sama máli

Gagnrýnisraddir hafa heyrst vegna aðgerðarleysi Seðlabankans hvað varðar inngrip á skuldabréfamarkaði. Síðla marsmánaðar á þessu ári boðaði Seðlabanki Íslands magnbundna íhlutun, kaup skuldabréfa á opnum markaði, fyrir alls 155 milljarða króna. Stýritækinu var ætlað að hafa áhrif á langtímakröfu skuldabréfa.

Hins vegar hafa kaup Seðlabankans verið í mýflugumynd og hafa vextir á skuldabréfamarkaði hækkað allverulega. Í október hækkaði Íslandsbanki vexti á húsnæðislánum. Ástæðan var sögð vera hærri fjármögnunarkostnaður þar sem vísað var til hækkandi ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði.

Í síðustu viku ræddi Viðskiptablaðið við Jón Bjarka Bentsson, aðalhagfræðing Íslandsbanka. Hann sagði að inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði hefðu enn sem komið er eðlilegar skýringar en hann myndi vilja sjá Seðlabankann hefja magnbundna íhlutun.

Í pistli Jóns í dag, sem birtur var á vef Íslandsbanka , var kallað eftir viðbrögðum vegna hækkun langtímavaxta. Enn fremur að Seðlabankanum hafi skort skýra stefnu og afdráttarlausa framsýna leiðsögn hjá peningastefnunefnd. „Að mati okkar væri heppilegt að taka til óspilltra málanna við slík kaup [kaup á ríkisskuldabréfum] fyrr en síðar. Einnig þarf [að] setja fram með mun skýrari hætti en gert hefur verið hver tilgangur kaupanna er og hver þróun þeirra gæti orðið með hliðsjón af þróun langtímavaxta og efnahagshorfa,“ kemur fram í greininni.

Jón segir að önnur þróuð ríki hafi „ víðast hvar kappkostað að halda aftur af langtímavöxtun á meðan Kórónukreppan bítur hvað harðast.“ Því stingi íslensk peningastefna í stúf við samanburðarlönd okkar þar sem nú þegar sjáist merki um að hækkandi langtímavextir séu farnir að endurspeglast í versnandi lánskjörum heimila og fyrirtækja. Sú þróun vinni „gegn því markmiði stjórnvalda að létta róður þessara aðila sem mest þar til rofa fer til í efnahagslífinu.“