„Þrátt fyrir að 90% fyrirtækja á Íslandi séu í hópi minni eða meðalstórra fyrirtækja hefur þessi hópur mætt afgangi við stefnumótun stjórnvalda síðustu ár,“ segir Birgir Bjarnason, formaður Félags atvinnurekenda , í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Hann bendir á að hagvöxtur láti á sér standa og það þurfi því nýja stefnu. Tími sé kominn til að beina kröftum að því „falda afli“ sem býr í minni og meðalstórum fyrirtækjum.

Í greininni bendir Birgir á að Félag atvinnurekend sé þessa dagana að hefja átak sem snýr að þessum fyrirtækjum. „Átakið er ákall til stjórnvalda um að tryggja þessum fyrirtækjum góð og uppbyggjandi skilyrði þannig að þau megi dafna og þroskast á sama tíma og þau styrkja undirstöður þjóðfélagsins,“ segir hann.

FA bendir á tólf tillögur sem eiga að móta samvinnuvettvang þar sem aðilar geta skipst á skoðunum og mótað stefnu til framtíðar í þágu minni og meðalstórra fyrirtækja. Á meðal tillagnanna sem Félag atvinnurekenda vekur helst athygli á eru takmörk á eignarhaldi banka á fyrirtækjum, skilvirkari fjármögnunarleiðir, aðgerðir gegn kennitöluflakki, lækkun tryggingagjalds og afnám vörugjalda.