Jeroen Dijsselbloem, leiðtogi fjármálaráðherraráðs evruríkjanna, segir að ný ríkisstjórn Grikklands muni fá lítinn stuðning frá aðilum innan evrusvæðisins til afskrifta skulda. BBC News greinir frá.

Eins og kunnugt er hefur ný ríkisstjórn verið mynduð í Grikklandi, en helstu kosningaloforð hennar fólust í því að semja um niðurfærslu skulda við lánardrottna innan evrusvæðisins auk þess að auka útgjöld ríkissjóðs.

Dijsselbloem segir hins vegar að Grikkir verði að halda sig við þær reglur sem nú séu gildandi. „Það er mjög lítill stuðningur við það að afskrifa skuldirnar í Evrópu,“ segir hann.

Skuldahlutfall ríkissjóðs Grikklands er um 176% af vergri landsframleiðslu.