Kjarasamningar í Karphúsinu - SA
Kjarasamningar í Karphúsinu - SA
© BIG (VB MYND/BIG)
Greiningardeild Arion banka spáir því að ársverðbólga mælist 4,3% í júní samanborið við 3,4% í maí. Gert er ráð fyrir að fyrstu kostnaðarhækkanir vegna kjarasamninga komi fram í júní og þá sé einnig líklegt að kaupmenn nýti tækifærði og ýti öðrum kostnaðarhækkunum út í verðlagið, meðal annars vegna veikingar krónunnar og hrávöruverðshækkana út í heimi. Einnig megi búast við sterkum áhrifum vegna húsnæðisliðar í næstu verðbólgumælingu Hagstofunnar, en fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,7% milli mánaða í júní. Alls er spáð 0,6% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV).

Greiningardeildin telur að heildaráhrif kjarasamninga á VNV í júní verði 0,15% en fyrstu hækkanir vegna kjarasamningar áttu sér stað 1. júní. „Eins og Greiningardeild hefur áður bent á þá er lítil innistæða fyrir eins miklum hækkunum og innihald samninga lofa til um. Mikill slaki er enn í hagkerfinu og mörg fyrirtæki alltof löskuð til að taka á sig þær kostnaðarhækkanir sem fylgja samningunum. Mörg fyrirtæki ýta þessum kostnaðarhækkunum því beint út í verðlagið til neytenda. Við gerum ráð fyrir að fyrstu áhrifin vegna þessa komi nú fram í hærra matvöruverði – hækkunin verður þó ívið meiri þar sem birgjar, kaupmenn og aðrir verslunareigendur munu að öllum líkindum ýta áhrifum vegna veikingar krónunnar og hækkandi hrávöruverðs að undanförnu samhliða út í verðlagið,“ segir í verðbólguspánni.