*

miðvikudagur, 27. maí 2020
Innlent 28. febrúar 2019 12:34

Segir Má hafa „varpað sprengju“

Forstjóri Samherja segir að seðlabankastjóri hafi „varpað sprengju“ inn í Samherjamálið með bréfi sínu til forsætisráðherra.

Sveinn Ólafur Melsted
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Aðsend mynd

Bréfið sýnir að Már Guðmundsson er í engum sáttarhug og ég tel viðbrögð hans lýsa viðbrögðum manns sem haldinn er sjúklegri þráhyggju," segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, um bréf seðlabankastjóra til forsætisráðherra vegna Samherjamálsins svokallaða, sem birt var opinberlega í gær. Þá segir hann að greinargerð bankaráðs Seðlabankans til forsætisráðherra staðfesti það sem Samherji hafi sagt í mörg ár: annars vegar varðandi það að Samherji hafi ekki verið að brjóta af sér, en þar komi skýrt fram að  Samherji  hafi skilað gjaldeyri umfram skilaskyldu og hins vegar hvernig stjórnsýslu bankans sé háttað - þeir virði hvorki umboðsmann né ákæruvaldið og að þeir hafi gegn betri vitund  lagt sekt  á Samherja. „Ríkissaksóknari var til dæmis búinn að benda þeim á það árið 2014 að þeir hefðu ekki heimild til þess í tengslum við önnur mál," segir hann.

Spurður um framhald málsins segir Þorsteinn að Samherji bíði nú eftir viðbrögðum frá bankaráði Seðlabankans og forsætisráðherra.

„Að sjálfsögðu erum við orðin þreytt á þessu máli og ég er búinn að segja við sjálfan mig að nú þurfi þessum málum að fara að ljúka. Lögmenn þurfa að sjá um það sem eftir stendur af þessu máli. Það má lesa í greinargerð bankaráðs að væntanlega hafi bankinn bakað sér skaðabótaábyrgð.  Ég vonast til þess að bankaráðið og forsætisráðherra hafi frumkvæði að því að ljúka þessum málum.  Seðlabankastjóri varpar svo sprengju inn í þetta mál með bréfi sínu sem hann sendi í lok janúar, meðal annars á bankaráð, og birti svo opinberlega í gær. Það er þó ljóst að bankaráð hefur ekki látið bréfið trufla sig."

Bankinn kunni að hafa bakað sér skaðabótaskyldu

Í lok síðasta árs óskaði forsætisráðherra eftir greinargerð frá bankaráði Seðlabanka Íslands vegna dóms Hæstaréttar Íslands í Samherjamálinu. Kallaði ráðherra eftir upplýsingum um hvað hefði legið að baki ákvörðun Seðlabankans um að taka upp málið á ný. Einnig var óskað eftir útlistun á því hvort eða með hvaða hætti Seðlabankinn myndi bregðast við dómnum og hvort dómsniðurstaðan kalli á úrbætur á stjórnsýslu bankans og þá hvaða.

„Sérstaklega vekur athygli að málarekstri og kærum Seðlabanka og þar áður FME vegna meintra brota á höftunum hefur nánast að öllu leyti verið hafnað af dómstólum eða saksóknurum," segir í  greinargerð bankaráðs Seðlabankans til forsætisráðherra. Stjórnvaldssektum sem bankinn hefur lagt á hafi í mörgum tilfellum verið hnekkt af dómstólum þegar á þær hefur verið látið reyna. „Brýnt er að bankinn taki þá gagnrýni sem fram hefur komið af hálfu umboðsmanns Alþingis til ítarlegrar skoðunar. Hið sama gildir um niðurstöður dómstóla og saksóknara sem fengið hafa mál vegna meintra brota á fjármagnshöftum til afgreiðslu," segir jafnframt í greinargerðinni.

Í greinargerðinni er einnig bent á að þeir sem borið hafi kostnað eða tjón vegna mistaka í stjórnsýslu Seðlabankans kunna að eiga rétt á skaðabótum frá Seðlabankanum. Þá er bent á að það sé erfið reynsla fyrir hvort heldur einstaklinga eða forsvarsmenn fyrirtækja að verjast þungum ásökunum eftirlitsstofnunar eins og Seðlabankans jafnvel þótt þeim takist að hnekkja málatilbúnaði stofnunarinnar á endanum.

Bankaráðið segir það Seðlabankanum til varnar að byggja hafi þurft upp regluverk með hraði og þekking á framkvæmd regluverks gjaldeyrishafta hafi skort. Seðlabankinn hafi því verið settur í erfitt hlutverk.

Húsleitir hjá Samherja hafi eflt höftin

Már Guðmundsson seðlabankastjóri telur að húsleit gjaldeyriseftirlits og saksóknara hjá Samherja í mars 2012 hafi haft varnaðaráhrif og stuðlað að því að gjaldeyrishöftin hafi verið áhrifaríkari en ella, jafnvel þó að það hafi ekki verið markmið húsleitarinnar. Þetta er meðal efnis í bréfi Más til Katrínar Jakobsdóttur um gjaldeyriseftirlit bankans og Samherjamálið. Þá sé ekki hægt að fullyrða um að stjórnsýslu Seðlabankans hafi verið ábótavant í málinu. Már telur engu síður að draga þurfi lærdóm af fyrirkomulagi gjaldeyrishaftanna. Óheppilegt sé að seðlabankastjóri sé yfirmaður rannsókna og þar með persóna hans dregin inn í einstaka mál. Það geti grafið undan tiltrú á önnur verkefni bankans á borð við verðbólgumarkmið og fjármálastöðugleika. Þá þurfi að vanda betur til við lagasetningu og veita meira svigrúm til leiðsagnar og sáttaviðræðna, við gjaldeyriseftirlit líkt og þekkist við rannsókn samkeppnismála.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér