Bolli Árnason, framkvæmdastjóri GT Tækni, sagði málmiðnað hafa staðið nokkuð vel undanfarið. Nú séu þó blikur á lofti þar sem fyrirtæki í sjávarútvegi hafi haldið að sér höndum.

Þetta sagði Bolli á opnum fundi Samtaka atvinnulífsins á Grand Hótel í morgun. Þar ræddi hann stöðu málmiðnaðarins. Hann sagði tækifæri til staðar með auknum útflutningi. Fleiri málmiðnaðarmenn vanti í geirann og því sé mikilvægt að líta til málmiðnaðar, og annars iðnaðar, í menntamálum. Bolli sagði að þegar hrykkti í stoðum einnar meginatvinnugreinar þá nái það til annarra, og átti þá við sjávarútveginn. Hann lagði áherslu á að sátt náist um sjávarútvegsstefnu í landinu.