,,Það er virkilega spennandi að vinna við stafræn viðskipti í dag þar sem það hefur verið mikil aukning á því sviði á síðustu árum. Það er mjög mikilvægt að viðskiptavinurinn fái rétta upplifun í gegnum heimasíðu fyrirtækisins þar sem hún er oft fyrsti snertiflöturinn hans við okkur.“ Þetta segir Maryssa Miller.

Maryssa Miller er yfir stafrænum viðskiptum hjá bandaríska flugfélaginu JetBlue. Hún var einn af fyrirlesurunum sem fluttu erindi á ÍMARK deginum fyrr í dag. Maryssa hefur yfir 15 ára reynslu af stafrænum viðskiptum en síðastliðin þrjú ár hefur hún unnið hjá JetBlue. Hennar starf felst aðallega í því að gefa viðskiptavinum þeirra sem bestu stafrænu upplifun í gegnum heimasíðu og farsíma.

Erindið sem Maryssa flutti á ÍMARK deginum bar yfirheitið Re-architecting the Customer Experience for the Digitally Connected Generation. En þar fjallaði hún um mikilvægi þess að nálgast viðskiptavininn á mannlegan hátt þó svo að viðskiptin og samskiptin séu stafræn. Hún segir að fólk telji það oft vera mikla þversögn þar sem stafræn viðskipti fjarlægja oft mannlegu samskiptin úr ferlinu. Meðal annars segir hún að þessum mannlega þætti sé hægt að ná fram með því að setja efni rétt fram, vera skemmtileg og hnyttin í því sem þau gera og reyna að byggja upp náið samband við viðskiptavininn.