Ferðaskrifstofur sem skipuleggja hvata- og ráðstefnuferðir hingað til lands hafa þurft að vísa hópum frá vegna skorts á gistingu. Þá er farið að bera á skorti á rútum og leiðsögumönnum yfir háannatímann. Kristín Sif Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Atlantik, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að fyrirtækið finni í fyrsta sinn verulega fyrir skorti á hótelrými. Kristín bendir reyndar á að hvatahópar komi aðallega utan háannatíma, s.s. í maí og september.

Í Morgunblaðinu segir að ferðamönnum hafi fjölgað mikið síðustu árin. Gert er ráð fyrir álíka mörgum farþegum með skemmtiferðaskipum til Reykjavíkur og í fyrra eða 92.000 manns. Á sama tíma er búist við 25% aukningu á Ísafirði og um 20% aukningu á Akureyri. Útlit er fyrir enn meiri aukningu á næsta ári.