Larry Fink forstjóri BlackRock, stærsta eignarstýringarfyrirtækis heims segir að bandarískir fjármálamarkaðir séu í augnablikinu full verðlagðir og að fjárfestar megi eiga von á vonbrigðum þegar uppgjör annars ársfjórðungs birtast.

Þetta sagði Fink í viðtali við John Cryan forstjóra Deutsche Bank á ráðstefnu sem bankinn stóð fyrir í dag.  Máli sínu til stuðnings sagði hann að bandarísk fyrirtæki sjái ekki fram á að ná að uppfylla væntingar markaðarins um vöxt á yfirstandandi ársfjórðungi.

Í viðtalinu benti hann einnig á að flatari vaxtaferill bandarískra ríkisskuldabréfa gæfi vísbendingu um að fjárfestar á skuldabréfamarkaði hefðu lægri væntingar um hagvöxt en fjárfestar á hlutabréfamarkaði. Sagði hann að bandaríski skuldabréfamarkaðurinn væri í raun á allt annari skoðun en hlutabréfamarkaðurinn þegar kemur að væntingum um hagvöxt.

Hann bætti einnig við að hann teldi að vaxtastig í Bandaríkjunum ætti ekki eftir að hækka jafn mikið og markaðurinn gerir ráð fyrir og það sama ætti við um verð á hlutabréfum sem myndu ekki standa undir væntingum fjárfesta.