„Það er nokkuð ljóst að boðuð einföldun mun ekki þýða lægri útgjöld fyrir almenning,“ segir Bryndís Loftsdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Fréttablaðið .

Í frumvarpi fjármálaráðherra um breytingar á lögum um virðisaukaskatt er gert ráð fyrir að það kosti 745 krónur að fæða hvern einstakling daglega. Hver fjögurra manna fjölskylda eyði rúmum 2.980 krónum í öll matarinnkaup á dag. Eru tölurnar byggðar á neyslukönnun Hagstofu Íslands þar sem miðað er við hjón með tvö börn.

Bryndís kveðst ósammála þeim tölum sem lagðar eru til grundvallar í frumvarpinu. Hún á mann og þrjú börn á aldrinum sex til ellefu ára og kveðst verja tveimur milljónum í mat á ári. Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að fjögurra manna fjölskylda eyði 988 þúsund krónum í mat og drykk á ári. „Matvæli og aðrar vörur sem nú bera sjö prósent virðisaukaskatt munu samviskusamlega hækka í verði í takt við hækkun á virðisauka og að auki um nokkrar krónur og tíkalla umfram það.“