Alan Curbishley lét að störfum sjálfviljugur sem knattspyrnustjóri West Ham í gær, en liðið er í eigu Björgólfs Guðmundssonar.

Mikið er fjallað um málið á íþróttasíðum bresku blaðanna í dag og er Curbishley ómyrkur í máli. Í viðtali við The Guardian segir Curbishley að erlendir fjárfestar og stjórnendur á borð við Björgólf Guðmundsson séu að ganga frá enskri knattspyrnu dauðri.

Meðal þeirra galla sem þeir koma með að borðinu séu óraunhæfar væntingar, óþolinmæði og skilningsleysi á hlutverki framkvæmdastjóra knattspyrnuliðs. Að mörgu leyti er enskum knattspyrnuliðum stjórnað með öðrum hætti en til að mynda atvinnuliðum á meginlandinu.

Í Englandi tíðkast að framkvæmdastjórinn sé algjör einvaldur þegar kemur að leikmannakaupum á meðan að hlutverk hans á meginlandinu felst fyrst og fremst í þjálfun og stjórn liðsins: Aðrir stjórnendur í félaginu sjá um leikmannaviðskipti.

Sem kunnugt er hafa borist fregnir af því Curbishley hafi verið ósáttur við stjórn félagsins, sérstaklega með stefnu þeirra í leikmannamálum. Lykilleikmenn hafa verið seldir án þess að fyllt hafi verið í skarð þeirra.

Fram kemur í The Guardian að framkvæmdastjórinn hafi sett stjórn West Ham afarkosti í sumar og að hann myndi íhuga að segja upp þegar kæmi að leikjahléi í ensku úrvalsdeildinni vegna landsleikja í september. Greinilegt er að hann þurfti ekki að íhuga málin lengi.

The Guardian segir að með því að segja upp í stað þess að þreyja þorrann og bíða eftir að vera sagt upp vegna samstarfsörðugleika hafi misst af meiriháttar starfslokasamningi. Blaðamaður breska blaðsins túlkar þetta sem svo að með uppsögninni sé hann að senda félögum sínum í stétt breskra framkvæmdastjóra – og hugsanlegum eftirmanni sínum – skýr skilaboð.

„Ef ég sé að hætta í þessu starfi, þá getið þið rétt ímyndað ykkur hversu slæmt það er.”

Þrátt fyrir að West Ham hafi byrjað leiktíðina vel hefur borið á gagnrýni á hann meðal stuðningsmanna félagsins. Fram kemur í Guardian að stjórn félagsins hafi síður en svo verið einangruð þegar kom að óska þess að West Ham léki skemmtilegri knattspyrnu, en það verður seint sagt að leikur liða undir stjórn Curbishley fái blóðið til að renna hraðar.

Jafnframt kemur fram í Guardian að mannauðsstjórnun Curbishley hafi verið áfátt og honum hafi samið illa við marga af helstu leikmönnum félagsins.