Ekki er útilokað að formlegar viðræður um sölu Arion banka og íslandsbanka hefjist fyrir kosningar, að sögn Katrínar Júlíusdóttur fjármálaráðherra. „Það gæti gerst, ég ætla ekki að útiloka það,“ sagði hún í samtali við fréttastofu RÚV í kvöld. Fréttastofan rifjar upp að óformlegar viðræður séu þegar hafnar um kaup lífeyrissjóðanna á hlut erlendra kröfuhafa í bönkunum. Framtakssjóðurinn leiðir viðræðurnar fyrir hönd lífeyrissjóðanna.

Katrín sagði jafnframt að sér finnist skipta miklu máli að innlendir aðilar kaupi hlut erlendu kröfuhafanna í bönkunum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, gagnrýnir hugsanleg kaup lífeyrissjóðanna á bönkunum og segir þá of hátt verðmetna.