Mikið hefur verið rætt um grein Ingibjargar Kristjánsdóttur, eiginkonu Ólafs Ólafssonar, sem hún skrifaði í Fréttablaðið fyrr í vikunni um að Ólafi hefði verið ruglað saman við lögfræðing með sama nafni í dómi Hæstaréttar í Al-Thani málinu. Á hún þar við símtal í gögnum málsins, þar sem fram kemur að ítrekað hafi verið rætt við „Óla“ um nákvæma útfærslu viðskiptanna sem deilt var um í málinu, en Hæstiréttur ályktaði að þar væri átt við eiginmann hennar, sakborninginn Ólaf Ólafsson.

Bjarnfreður Ólafsson, sá sem vitnað er til í dómi Hæstaréttar, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að hann skildi ekki hvernig Hæstiréttur kæmist að svo afdráttarlausri niðurstöðu að rætt hefði verið um Ólaf Ólafsson í símtalinu. Sagði hann það liggja fyrir að hann ræddi við Ólaf Arinbjörn Sigurðsson, sérfræðing í kauphallarrétti, um viðskiptin. „Allar tilvísanir í „Óla“ benda til þess að þar hafi verið átt við

Réði úrslitum um sakfellingu Ólafs

Björn Þorvaldsson saksóknari sagði í viðtali við mbl.is í fyrradag að sakfelling Ólafs stæði ekki og félli með símtalinu umtalaða. Ragnar Hall hæstaréttarlögmaður, sem gætti hagsmuna Ólafs á fyrri stigum málsins og þar til aðalmeðferð í héraðsdómi fór fram, segir í samtali við Viðskiptablaðið að það sé „algjört rugl“.

„Í dómi Hæstaréttar er dregin sú ályktun að í þessu símtali geti ekki verið átt við neinn annan en Ólaf Ólafsson. Í framhaldi af þeirri fullyrðingu segir svo orðrétt í dóminum: „Á þessum grunni …“ og svo fylgir niðurstaðan þar á eftir. Það er á þessu sem Hæstiréttur byggir þá niðurstöðu að Ólafur hafi verið helmingskaupandi að hlutabréfunum, en ekki að Al Thani hafi stað- ið einn að kaupunum. Ég þekki öll gögn í málinu. Það er enginn vafi í mínum huga að þetta atriði réði úrslitum um það að Ólafur var sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun í þessu máli,“ segir Ragnar.

Ljóst af öllum vitnaskýrslum

Ragnar segir að Björn sé eini mað- urinn af þeim sem hafi skoðað málið sem haldi því fram að í símtalinu sé átt við Ólaf Ólafsson. „Bjarnfreður er nú búinn að tjá sig um þetta opinberlega. Það stendur í útprentunum frá yfirheyrslum yfir Bjarnfreði fyrir héraðsdómi þar sem hann er spurður um það hvort hann hafi einhvern tímann talað við Ólaf Ólafsson um það sem var verið að ræða í þessu símtali; strúktúrinn um hlutabréfakaupin. Og Bjarnfreður svaraði því neitandi.“

Þá segir Ragnar að Ólafur Arinbjörn hafi greint frá því í skýrslutökum að hann hafi átt samtöl við Bjarnfreð þar sem þeir hafi farið yfir skipuritið út frá flöggunarreglum.

„Það var verið að fjalla um hverju væri skylt að flagga og hverju ekki. Það er nákvæmlega sama útskýring og Bjarnfreður hefur gefið og í þessu símtali er verið að ræða flöggunarreglur. Það er enginn vafi um þetta í mínum huga,“ segir Ragnar. Hann segir að á öllum stigum málsins hafi verið gengið út frá að í símtalinu væri átt við Ólaf Arinbjörn. Misskilningurinn hafi orðið til í Hæstarétti.

LEIÐRÉTTING: Á forsíðu Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun er að finna villu í tilvísun til fréttarinnar. Þar segir að fyrrverandi verjandi Ólafs Ólafssonar segi nafnarugling Hæstaréttar í Al-Thani málinu hafa átt að leiða til sýknu. Hið rétta er að Bjarnfreður Ólafsson heldur því fram en ekki verjandinn fyrrverandi. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .