Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, sagði í viðtali við bresku fréttastöðina BBC News 24  í kvöld að hann eygi möguleika á því að flytja út vörumerki fyrirtækja félagsins til annarra landa.

Baugur hefur keypt fjölda breskra smásölufyrirtækja á síðustu árum og lauk nýverið við kaup á stórverslunarkeðjunni House of Fraser, ásamt fleiri fjárfestum. Heildarvirði viðskiptanna nemur 75 milljörðum íslenskra króna.

Fréttamaður BBC News 24 orðaði Baug við bresku verslunarkeðjurnar Moss Bros og Wooworhts en Jón Ásgeir neitaði að tjá sig um næstu verkefni félagsins. Baugur á hluti í fyrirtækjunum í gegnum Unity-fjárfestingasjóðinn.

Hann sagði mörg bresk smásölufyrirtæki undirverðlögð og að í Bretlandi væri hægt að fá góð fyrirtæki á góðu verði. Jón Ásgeir telur einnig að vörumerki innan eignasafns félagsins eigi möguleika á að verða vinsæl utan Bretlands.

Einnig minntist hann á að Baugur nýti arðgreiðslur frá fyrirtækjum innan eignasafnsins til að fjárfesta enn frekar og styðja við kaup fleiri fyrirtækjum, ásamt því að skuldsetja fyrirtækin sem félagið kaupir. (e. leveraged buyout).