*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 28. október 2014 07:58

Segir MS hafa beitt blekkingum

Mjólkurbúið KÚ hefur kært Mjólkursamsöluna og Kaupfélag Skagfirðinga fyrir ólögmætt samráð.

Ritstjórn
Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólkurbúsins.
Aðsend mynd

Mjólkurbúið KÚ hefur kært Mjólkursamsöluna (MS) og Kaupfélag Skagfirðinga (KS) fyrir ólögmætt samráð. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Mjólkurbúinu.

Mjólkurbúið segir samráðið hafa staðið yfir frá því að MS tók til starfa í byrjun árs 2007. Það telur að Mjólka ehf. hafi einnig tekið þátt í samráðinu eftir að KS keypti félagið árið 2009. Samráðið er að mati forsvarsmanna og lögmanna Mjólkurbúsins meðal annars brot gegn 10. gr. samkeppnislaga. Þess er krafist að Samkeppniseftirlitið grípi þegar í stað til aðgerða þar sem um sé að ræða samfelld brot sem staðið hafi yfir í langan tíma og beinist að mikilvægum neysluvörum almennings.

MS ranglega skilgreind sem afurðastöð

Mjólkurbúið heldur því fram að kæran sé studd margvíslegum gögnum sem forsvarsmenn þess hafi aflað frá mjólkurbændum, mjólkuriðnaðinum, Bændasamtökunum, stjórnvöldum og samkeppnisyfirvöldum. Þau sýni að MS hafi verið ranglega skilgreind sem afurðastöð í skilningi búvörulaga, en þær eru undanþegnar ákvæðum samkeppnislaga um bann við samkeppnishamlandi samráði og samruna fyrirtækja.

Mjólkurbúið heldur því fram að til þess að teljast afurðastöð í skilningi búvörulaga þurfi viðkomandi aðili að taka við mjólk eða annarri búvöru beint frá framleiðanda. Það geri MS ekki, heldur sé það Auðhumla, móðurfélag MS, sem annist alla innvigtun og söfnun mjólkur frá bændum og greiði fyrir hana. MS hafi ekki keypt dropa af mjólk af bændum frá því fyrirtækið var stofnað 2007, heldur kaupi það mjólkina af móðurfélaginu. Segir Mjólkurbúið að víðtækt samráð og samstarf MS við KS og fleiri aðila í mjólkuriðnaði á undanförnum árum stríði gegn samkeppnislögum að mati lögmanna fyrirtækisins.

Segir MS beita blekkingum

„Ég tel það mjög alvarlegt að forsvarsmenn MS hafa með blekkingum haldið því fram að MS sé afurðastöð í skilningi búvörulaga og því undanþegin ákvæðum samkeppnislaga. Þessari blekkingu hefur verið haldið fram gangvart samkeppnisyfirvöldum og neytendum til að réttlæta brot fyrirtækisins á samkeppnislögum. Þessu verður að linna.“ segir Ólafur M. Magnússon framkvæmdastjóri Mjólkurbúsins.

Í kæru lögmanna Mjólkurbúsins er á það bent að einungis tveir aðilar hér á landi geti talist afurðastöðvar í skilngi búvörulaga. Það séu Auðhumla og KS. Það breyti engu þótt MS sé að 90,1% í eigu afurðastöðvarinnar Auðhumlu, þar sem réttindi eins lögaðila færist ekki til annars þótt tengdir séu.

Forstjóri MS segir málið byggt á misskilningi

Einar Sigurðsson, forstjóri MS, segir í samtali við Fréttablaðið að hann telji vangavelturnar byggðar á misskilningi. Mjólkursamsalan sé skilgreind sem afurðastöð samkvæmd Matvælastofnun.

„Skilgreining á afurðastöð er ekki hvort fyrirtækið sé í reikningssambandi við bændur. Auðhumla sér um reikningshaldið. Innvigtun mjólkur er á okkar höndum þó mjólkin sé greidd í gegnum Auðhumlu. Auðhumla er aðili að samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Að mínu mati eru vangavelturnar byggðar á misskilningi,“ segir Einar.