Ingimundur Sigurpálsson forstjóri Íslandspósts tekur undir með Andrési Magnússyni framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu um niðurgreiðslur póstsins vegna sendinga frá þróunarlöndum.

Í Morgunblaðinu kemur fram að samkvæmt áratugsgömlum alþjóðasamningi 192 ríkja, er vestrænum löndum skylt að niðurgreiða um 70-80% af kostnaði vegna póstsendinga frá þróunarlöndum, þar með talið frá Kína. Segir Ingimundur að niðurgreiðslurnar nemi hundruðum milljóna á ári hverju.

„Það er óhætt að segja að þessi ófjármagnaða byrði skýri megnið af okkar tapi,“ segir Ingimundur en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur það vakið spurningar að nú fari félagið fram á hálfs milljarðs króna lán frá ríkinu.

„Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef séð er bandaríski pósturinn að niðurgreiða póstsendingar fyrir um 13 milljarða íslenskra króna. Það er hlutfallslega minna en við erum að greiða niður miðað við veltu.“

Alþjóðleg póstþing eru haldin á fjögurra ára fresti, þar með talið fyrr á þessu ári. Fjöldi póstþjónustufyrirtækja eru að sögn Ingimundar að sligast undan kostnaðinum. „Á síðasta þingi var gerð fjórða tilraunin til að breyta þessu en það miðar lítið sem ekkert áfram með það.“