Uppsagnir og niðurskurður Rio Tinto sem tilkynnt var um í morgun mun ekki hafa áhrif á Rio Tinto Alcan (álverið í Straumsvík), en Rio Tinto er móðurfélag Alcan á Íslandi.

Eins og fram kom í morgun hefur Rio Tinto ákveðið að segja upp allt af 14 þúsund manns og skera niður um fimm milljarða dali í fjárfestingum sínum í nýjum verkefnum.

Að sögn Ólafs Teits Guðnasonar, framkvæmdastjóra samskiptasviðs Alcan á Íslandi mun niðurskurður Rio Tinto ekki hafa áhrif á fyrirhugaða framleiðsluaukningu álversins.

Með tæknilegum endurbótum - sem fela litlar byggingaframkvæmdir í sér og allt inná núverandi starfssvæði - er unnt að auka framleiðslugetu núverandi kerskála álversins í Straumsvík um 40.000 tonn á ári.

Þetta byggir fyrst og fremst á því að auka spennu í álverinu. Til að þetta sé unnt þarf  viðbótarafl, eða 75MW.  Í dag notar Straumsvík innan við 330 MW og heildaraflsþörf álversins myndi fara upp í 410 MW.

Ólafur Teitur segir í samtali við Viðskiptablaðið að ákvörðun um þetta verði tekin fljótlega eftir áramót. Enn sé unnið að raforkusamningi.

Núgildandi raforkusamningur Alcan rennur að óbreyttu út árið 2014 en í ákvæðum í samningum voru möguleikar á framlengingu til 2024 ef samkomulag næst um verð. Samkvæmt fyrirliggjandi samningsdrögum mun álverið greiða hærra raforkuverð strax frá og með næsta ári en það mun ella greiða til ársins 2014 samkvæmt núgildandi samningi.

Samkomulag náðist við Landsvirkjun síðastliðið sumar um að þetta afl yrði útvegað með Búðarhálsvirkjun. Gengið var út frá því að ekki yrði samið um viðbótarorkuna sérstaklega heldur samið upp á nýtt um öll raforkukaup álversins í Straumsvík og myndi sá samningur gilda til ársins 2037.

Af hálfu Alcan er um að ræða fjárfestingu að fjárhæð 335 milljónir Bandaríkjadala. Gert er ráð fyrir að þar af falli um 34% til á Íslandi, eða 102 milljónir Bandaríkjadala sem eru um 14 milljarðar króna miðað við síðasta geng.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdirnar kalli á allt að 300 viðbótarstörf á framkvæmdatímanum, sem gengið hefur verið út frá að yrði 2009 og 2010.