„Hann er náttúrlega ekki hættur að hugsa um fjárfestingar hér. En auðvitað hlýtur hver mánuður sem líður að draga úr áhuga hans því hann fær engin svör,“ segir Halldór Jóhannsson, talsmaður kínverska auðmannsins Huang Nubo á Íslandi. Nubo lýsti árið 2011 yfir áhuga á umsvifamiklum fjárfestingum hér á landi, s.s. kaupum á jörð Grímsstaða á Fjöllum, lagningu golfvallar og byggingu hótela. Áætlað var að fjárfesting hans myndi nema 200 milljónum dala, jafnvirði tæpra 23 milljarða íslenskra króna. Lítið hefur hins vegar gerst síðan þetta var.

Ekki búinn að segja nei

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra neitaði Nubo um leyfi til að kaupa landsvæðið í gegnum einkahlutafélagið Beijing Zhongkun Investment Group. Í staðinn var stefnt að því að landið að Grímsstöðum yrði tekið á leigu af félagi Nubo til lengri tíma. Í tengslum við áformin stofnaði Nubo einkahlutafélagið Zhongkun Europe ehf um mitt ár 2012. Félagið er skráð á Akureyri og er Halldór framkvæmdastjóri þess.

„Hann er ekki búinn að segja nei. En það er legið í honum úr öllum áttum og eðlilega heldur hann áfram sínum viðskiptum. Hann getur ekki setið og beðið eftir okkur.“

Skoðar fjárfestingar í Noregi

Fram kom í netútgáfu bandaríska tímaritsins BusinessWeek í gær að Nubo hafi saltað áform sín hér á landi vegna óvissunnar og snúið sér þess í stað að Noregi. Nú eigi hann í viðræðum við norska aðila um kaup á hóteli í Osló auk þess fleiri mála sem tengjast uppbyggingu í ferðaþjónustu þar í landi. Áætluð fjárfesting hans geti numið í kringum 100 milljónum dala, í kringum 11 milljörðum íslenskra króna.

Halldór segir Nubo ekki enn hafa fengið svör um fyrirhugaðar fjárfestingar hans hér á landi. Viðræður hafi farið fram við fyrrverandi og núverandi ráðherra sem hafa verið með mál Nubo á sinni könnu. Fjárfestingarsamningur liggi hins vegar ekki fyrir.

„Núverandi ríkisstjórn ætlar að endurskoða lög um fjárfestingar. En samkvæmt síðustu upplýsingum munu þær tillögur ekki liggja fyrir fyrr en í apríl,“ segir Halldór.